Fótbolti

Óttast að konur verði graðar á að horfa á karlmenn í fótbolta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hluti af konunum sem fengu að sjá landsleikinn í vikunni. Þær skemmtu sér konunglega.
Hluti af konunum sem fengu að sjá landsleikinn í vikunni. Þær skemmtu sér konunglega. vísir/getty
Karlarnir í Íran eru ekki enn farnir að leyfa konum að horfa á fótboltaleiki þar í landi þó svo þeir þykist vera að stíga skref í rétta átt.

Fyrr í vikunni fengu örfáar konur að sjá landsleik Írans og Bolívíu en almennt er litið á þann gjörning sem sýndarmennsku. Konurnar voru girtar af á sérstöku svæði með öryggisgæslu allt í kringum sig.

Stjórnvöld í Íran hafa meinað konum frá því að sækja íþróttaviðburði í áratugi og konur hafa reynt að lauma sér inn á völlinn klæddar sem karlar. Það gengur sjaldnast og þá er þeim hent af vellinum eða hreinlega fangelsaðar.

Forseti FIFA, Gianni Infantino, var mikið gagnrýndur í mars er hann mætti á landsleik í Íran þar sem fjöldi kvenna reyndi að lauma sér inn. Hann gagnrýndi Írana ekkert þá.

Dómsmálaráðherra Íran, Mohammad Jafar Montazeri, var allt annað en ánægður með að konum var hleypt á landsleikinn og hótar refsingum ef þetta heldur svona áfram.

„Ég mótmæli harðlega veru kvenna á landsleiknum. Við erum múslimskt ríki. Við erum múslimar,“ sagði Montazeri sem virðist helst óttast að konur verði graðar af því að sækja knattspyrnuleik.

„Við munum taka á þeim sem ætla sér að hleypa konum á knattspyrnuvelli. Þegar kona fer á völlinn og sér hálfnakta karlmenn í íþróttafötum þá mun það leiða til syndar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×