Innlent

Ryðja snjó á Hellisheiði

Atli Ísleifsson skrifar
Á Hellisheiði um klukkan 18:30 í kvöld.
Á Hellisheiði um klukkan 18:30 í kvöld. Vísir/Kristófer Helgason
Snjómokstur fer nú fram á Hellisheiði en spá gerir ráð fyrir að það snjói bæði á Hellisheiði og Mosfellsheiði fram á kvöld.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir þetta í annað sinn í vetur sem snjóruðningstæki séu að störfum.

Skil lægðar nálgast nú landið úr suðri sem leiðir til snjókomunnar. Sömuleiðis muni snjóa í kvöld á Vatnaleið, Bröttubrekku og Holtavörðuheiði og þar fram undir miðnætti.

„Stormur með suðurströndinni og Öræfum, hviður allt að 35-40 m/s þvert á veg frá því um kl. 17-18,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Á Vestfjörðum eru hálkublettir á Hálfdán, Dynjandisheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Klettshálsi og á Þröskuldum. Snjóþekja er á Þorskafjarðarheiði.

Á Norður- og Austurlandi er hálka á Hólasandi og á Dettifossvegi. Hálkublettir eru á Mývatns- og Möðrudalsöræfum sem og á Vatnsskarði og Þverárfjalli. Þungfært er á Mjóafjarðarheiði og snjóþekja er upp að Kárahnjúkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×