Erlent

Fréttastjóri hjá BBC segir upp vegna launamisréttis

Birgir Olgeirsson skrifar
Fréttastjórinn segir BBC rúið trausti eftir að upp komst að tveir þriðju þeirra sem þéna meira en 150 þúsund pund, eða því sem nemur um 21 milljón íslenskra króna, hjá breska ríkisútvarpinu á ári séu karlar.
Fréttastjórinn segir BBC rúið trausti eftir að upp komst að tveir þriðju þeirra sem þéna meira en 150 þúsund pund, eða því sem nemur um 21 milljón íslenskra króna, hjá breska ríkisútvarpinu á ári séu karlar. Vísir/Getty
Fréttastjóri hjá breska ríkisútvarpinu BBC hefur sagt starfi sínu lausu vegna launamisréttis. Fréttastjórinn heitir Carrie Gracie en hún hefur starfað hjá BBC í rúmlega þrjá áratugi en hún sagði upp sem fréttastjóri yfir fréttaflutningi af Kína en ætlar að halda áfram hjá breska ríkisútvarpinu.

Í opnu bréfi sem hún ritaði segir hún mikla leynd yfir launamálum breska  ríkisútvarpsins og að launagreiðslurnar brjóti jafnframt gegn jafnréttislögum.

Hún segir BBC rúið trausti eftir að upp komst að tveir þriðju þeirra sem þéna meira en 150 þúsund pund, eða því sem nemur um 21 milljón íslenskra króna, hjá breska ríkisútvarpinu á ári eru karlar.

Í frétt breska ríkisútvarpsins af uppsögn Gracie er vitnað í forsvarsmenn BBC sem segja enga kerfisbundna mismunun í garð kvenna við líði hjá fjölmiðlinum.

Gracie segist ætla að snúa aftur til starfa í sjónvarpsfréttum BBC þar sem hún væntir þess að fá jafn mikið borgað og karlar í sömu stöðu.

Í júlí í fyrra var BBC neytt til að opinbera laun allra starfsmanna sem fengu meira en 150 þúsund pund á ári.

Jon Sopel, sem er fréttastjóri yfir fréttum af Bandaríkjunum, þénaði á bilinu 200 þúsund til 249 þúsund pund á ári á meðan Jeremy Bowen, sem stýrir fréttaflutningi af Miðausturlöndunum, þénaði 150 þúsund til 199 þúsund pund.

Gracie var ekki á listanum sem þýðir að hún þénaði minna en 150 þúsund pund. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×