Erlent

Farþegar óttuðust um líf sitt þegar skemmtiferðaskipi var siglt inn í miðjan storm

Birgir Olgeirsson skrifar
Skemmtiferðaskiptið Norwegian Breakaway.
Skemmtiferðaskiptið Norwegian Breakaway. Vísir/Getty
Áhöfn skemmtiferðaskips lét storminn sem hefur gengið yfir austurströnd Bandaríkjanna ekki stöðva sig.

Skipið heitir Norwegian Breakaway og er í eigu bandaríska fyrirtækisins Norwegian Cruise Line Holdings.

Farþegar skipsins fengu að upplifa mikinn öldugang og brjálað veður í nokkra daga á meðan skipið var á leiðinni til New York borgar í Bandaríkjunum frá Bahamaeyjunum.

Einn farþeganna sagði í samtali við fréttastofu CBS að veran í skipinu á meðan þessu stóð hefði verið martröð líkast.

„Ég hélt ég yrði aldrei í þeim aðstæðum að geta sagt að þetta væri hræðilegasta stund lífsins. Þetta var hins vegar versta stund lífs míns,“ sagði Karoline Ross.

Hún sagði að skipinu hefði verið siglt beinustu leið inn í storminn síðastliðinn þriðjudag og tóku þá við tveir af verstu dögum lífs hennar þar sem ölduhæðin náði allt að rúmum níu metrum.

„Þegar þú ert í skipi úti á miðju hafi og vatnið flæðir niður stigann hugsar þú með þér að þetta eigi ekki eftir að enda vel. Herbergið okkar var fullt af vatni og það lak niður lyftustokka.“

Annar farþegi sagðist aldrei aftur ætla um borð í skip eftir þessa ferð „Ég er í algjöru áfalli,“ sagði Emma Franzee við CBS þegar hún komst í land í New York síðastliðinn föstudag.

„Í hreinskilni sagt hélt ég að við myndum ekki hafa þetta af,“ sagði Conor Vogt sem var farþegi í skipinu.

CBS spurði forsvarsmenn Norwegian Cruise Line hvers vegna var ákveðið að sigla inn í storminn þegar ljóst var í hvað stefndi.

Tilkynning barst frá fyrirtækinu þar sem því var haldið fram að veðrið hefði reynst mun verra en spáð hafði verið. Hvorki áhöfn né farþegar hefðu þó verið í hættu á meðan því stóð.

Á vef Mashabel er greint frá því að veðurfræðingar stigu margir hverjir fram á samfélagsmiðlum í ljósi tilkynningar fyrirtækisins og bentu á að spárnar hefðu gengið eftir og að skipið hefði aldrei átt að vera á þessum slóðum.

Farþegarnir hrósuðu margir hverjir áhöfninni fyrir vel unnin störf en vildu þó meina að skipstjórinn hefði mátt vera duglegri að veita þeim upplýsingar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×