Innlent

Þrjár 29 ára vinkonur á Selfossi allar doktorar

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Stefanía ásamt foreldrum sínum, þeim Önnu Vilhjálmsdóttir og Garðari Eiríkssyni, á Selfossi.
Stefanía ásamt foreldrum sínum, þeim Önnu Vilhjálmsdóttir og Garðari Eiríkssyni, á Selfossi. Vísir/MHH
Stefanía Ósk Garðarsdóttir, 29 ára Selfyssingur, varði nýlega doktorsritgerð sína við orku og umhverfisverkfræðideild tækniháskólans Chalmers í Gautaborg í Svíþjóð.

Ritgerðin ber heitið „Technical and economic conditions for efficient implementation of CO2 capture – process design and operational strategies for power generation and process industries“.

Stefanía er Selfyssingur í húð og hár, fædd og uppalin í plássinu. Eftir grunn- og framhaldsskólanám tók Stefanía sér ársleyfi frá námi en hóf haustið 2007 nám við Háskóla Íslands í vélaverkfræði og lauk bakkalárgráðu (BSc.) í þeim fræðum vorið 2010. Þá um haustið lá svo leiðin til Gautaborgar í Svíþjóð í meistaranám í orkuverkfræði sem hún lauk vorið 2012 og hóf þá í kjölfarið doktorsnám við sama skóla í þessum fræðum.

Rannsóknir Stefaníu snerust að ákveðnu efnaferli sem nota má við kolefnabindingu frá stóriðju, þ.e. til þess að hreinsa koltvísýring úr afgösum stóriðjuferla og hindra losun hans í andrúmsloftið, t.d. við stál- og sementsframleiðslu, raforkuframleiðslu byggða á jarðefnaeldsneyti og olíuhreinsun. Stefanía skoðaði m.a. ýmsa þætti sem hafa áhrif á skilvirkni og kostnað kolefnabindingarferlisins þegar það er notað í hinum ýmsu stóriðjuferlum.

Mikilvægur málaflokkur

Stefanía segir málaflokkinn sem hún skrifaði doktorsritgerðina sína um henni mjög mikilvægan. „Já, minnkun umhverfisáhrifa frá stóriðju er mjög mikilvæg, bæði frá íslensku og alþjóð- legu sjónarhorni. Notkun jarðefnaeldsneyta í bæði raforkuframleiðslu og í annarri mikilvægri stóriðju eins og stál- og sementsframleiðslu er gríðarlega mikil, og sé litið til heimsins er því miður erfitt að sjá það að endurnýjanlegir orkugjafar geti komið í stað alls þessa jarðefnaeldsneytis.“

Stefanía er að flytja til Noregs með eiginmanni sínum þar sem hún hefur fengið vinnu hjá norsku rannsóknarstofnuninni Sintef í Þrándheimi. Þar mun hún vinna með nokkuð svipaða hluti og í doktorsnáminu, þ.e. tæknilausnir sem snúa að minnkun umhverfisáhrifa frá stóriðju, sérstaklega frá norrænu sjónarhorni.

Það er gaman að segja frá því að tvær vinkonur Stefaníu frá Selfossi, en þær voru allar saman í Fjölbrautaskóla Suðurlands á sínum tíma, luku líka doktorsprófi 29 ára gamlar. Þessar vinkonur Stefaníu eru Guðrún Nína Óskarsdóttir sem lauk doktorsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands í byrjun sumars 2017 og Dórótea Höeg Sigurðardóttir sem lauk doktorsprófi í byggingaverkfræði frá Princeton-háskólanum í Bandaríkjunum vorið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×