Enski boltinn

Alexis Sanchez samningurinn mun kosta United meira en 25 milljarða króna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sanchez þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af peningum eftir þennan samning.
Alexis Sanchez þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af peningum eftir þennan samning. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, getur varla talað lengur um að nágrannar þeirra í Manchester City séu að eyða meiri peningum í leikmenn en Manchester United.

Fari svo eins og allt stefnir í, að Sílemaðurinn Alexis Sanchez gangi til liðs við Manchester United, þá mun það heldur betur kosta skildinginn fyrir félagið.

Telegraph hefur heimildir fyrir því að allur Alexis Sanchez samningurinn muni kosta Manchester United samtals í kringum 180 milljónir punda eða rúmlega 25,6 milljarða íslenskra króna.

Sanchez er búinn að samþykkja sín persónuleg kjör en menn bíða nú bara eftir því að Henrikh Mkhitarayn gefi grænt ljós á að fara í staðinn til Arsenal.

Manchester United borgar Arsenal kannski „bara“ 30 milljónir punda fyrir leikmanninn en við það bætast síðan 150 milljónir punda í launakostnað, bónus og annað.







Hinn 29 ára gamli Alexis Sanchez verður með 14 milljónir punda í árslaun eftir skatta, tæplega tvo milljarða, sem gera 27 milljónir punda á ári fyrir skatt.

Alexis Sanchez fær síðan 20 milljónir punda bara fyrir að skrifa undir og þá þarf að borga umboðsmönnum meira en 10 milljónir punda.

Samtals mun því þessi fjögurra og hálfs árs samningur kosta Manchester United í kringum 180 milljónir punda eða meira en 25,6 milljarða króna. Það er kannski ekkert skrýtið að Manchester City hafi sagt hingað og ekki lengra og dregið sig út úr kapphlaupinu um Sílemanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×