Össur greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni en þeir Eyþór hittust í búningsklefanum í World Class í Laugardalnum í gær.
„Í dag stóð ég á brókinni í búningsklefa í World Class og útskýrði með litríkum hætti að hræðilegustu örlög í stjórnmálum heimsins væru að vinna leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Glæsilegur maður á besta aldri, Eyþór Arnalds, spurði mig kurteislega hvernig á því stæði?“
Ekki stóð á svörum hjá Össuri.

Össur segir að Eyþór, sem er útgefandi Morgunblaðsins, svaraði „akkúrat“ að sögn Össurar og virtist hugsi.
„Þegar ég kom svo vel marineraður úr gufubaði hálfu kílói síðar var náttúrlega það fyrsta sem ég heyrði að Eyþór Arnalds hefði gefið kost á sér í leiðtogasætið,“ segir Össur og bætir við að hann hafi einsett sér að segja aldrei „I told you so!“
Allsber Össur í World Class 2008
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem forvitnilegir hlutir gerast í World Class og Össur kemur við sögu. Þannig segir Össur frá því í 20. kafla skýrslu Rannsóknarnefnar Alþingis um fall bankanna um daginn sem Glitnir féll:
„Ég meina, ég stóð allsber í búningsklefanum í World Class, var að fara í gufubað á sunnudegi og var að halda mér sérstaklega til því að ég var í fyrsta skipti á ævinni að fara til klæðskera.“
Hann hafi litið á símann sinn í fötunum áður en hann fór í gufuna.
„...og þá sá ég bara að þar voru ógeðslega mörg símtöl og sms frá Einari Karli sem var staddur í Glasgow og sagði að það væru allir að leita að mér, það væri einhver krísa og ég yrði að hringja í Ingibjörgu Sólrúnu þannig að ég klæddi mig og hringi í hana.“
Þrjú bjóða fram
Eyþór er þriðji frambjóðandinn í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Áður höfðu Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon boðið sig fram. Þá ætlar Vala Pálsdóttir, formaður Landsambands sjálfstæðiskvenna, að tilkynna um framboð í dag
Vala hefur tengingu við Morgunblaðið eins og Eyþór en hún er tengdadóttir Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélags Vestmannaeyja, sem er einn eigenda Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.
Frestur til að tilkynna um framboð rennur út klukkan 16 í dag.