Erlent

Yfir 130 látnir í árásum á aðeins 9 dögum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Minnst 103 létust í árás í borginni á laugardaginn.
Minnst 103 létust í árás í borginni á laugardaginn. Vísir/AFP
Yfir 130 manns hafa týnt lífi í mannskæðum árásum í Kabúl, höfuðborg Afganistan, á rétt rúmri viku. Mikill órói hefur verið í landinu síðustu vikur þar sem vígamenn íslamska ríkisins og talíbana skiptast á að láta til skarar skríða.

Ellefu hermenn féllu og minnst sextán til viðbótar eru særðir eftir árás sem gerð var á herstöð í grennd við herskólann í Kabúl, höfuðborg Afganistan, í nótt. Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafa lýst yfir ábyrgð á ódæðinu.

Þá létust rúmlega hundrað manns og á þriðja hundrað eru særðir eftir að sjúkrabíll var sprengdur í loft upp á laugardaginn. Talíbanar lýstu ábyrgð á þeirri árás en hún er ein sú blóðugasta í landinu í marga mánuði.

Stjórnmálamenn víða um heim hafa fordæmt árásirnar, þeirra á meðal Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra, sem sagði á Twitter um helgina að árásin á laugardag bæri merki um heigulshátt. Talskona kínverska utanríkisráðuneytisins fordæmdi einnig árásirnar í dag en sjúkrabílasprengjan, sem varð minnst 103 manns að bana, sprakk aðeins 600 metrum frá sendiráði Kína í Afghanistan.

Þá réðust vígamenn talíbana á lúxushótel í Kabúl fyrir rúmri viku síðan þar sem 22 féllu. Þannig hafa yfir 130 manns týnt lífi í mannskæðum árásum í höfuðborginni á aðeins níu dögum. Vel á þriðja hundrað til viðbótar eru særðir eftir árásirnar.

Margir íbúar borgarinnar lýsa yfir óánægju sinni í garð yfirvalda í kjölfar árásanna. Að sögn varnarmálaráðherra Afganistans hafa öryggissveitir undir stjórn hersins ráðist í fjölda aðgerða gegn hryðjuverkamönnum undanfarnar vikur þar sem hátt í tvö þúsund vígamenn úr röðum talíbana hafa verið felldir og tæplega 40 liðsmenn íslamska ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×