Fótbolti

Starfshópur um Laugardalsvöll skilar tillögum 1. apríl │Vilja ekki hugsa til heimaleikja í Köben

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Uppbygging Laugardalsvallar hefur verið þó nokkuð í umræðunni síðustu ár en nú er komin nokkur pressa á KSÍ þegar landsliðin leika fleiri mikilvæga leiki á vetrarmánuðunum.

„Það er góður gangur á þessari vinnu núna, við erum að vinna með stýrihópi sem á að skila af sér tillögum 1. apríl. Það er mjög góður gangur á þeirri vinnu og svo verður fljótlega tekin ákvörðun í kjölfarið á því,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í viðtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Heimaleikir Íslands í Þjóðardeildinni verða í september og október á þessu ári, en síðasti leikur liðsins í þeirri keppni verður spilaður á útivelli í nóvember. Ísland gæti þurft að spila leik í umspili um sæti á Evrópumótinu árið 2020 í mars það sama ár, og þá yrði annar leikur þess einvígis heimaleikur. Þann leik þyrfti þó líklega að spila í Kaupmannahöfn, því Laugardalsvöllur er ekki hæfur til þess að spilað sé á honum í mars eins og staðan er í dag.

„Það er möguleiki, við viljum ekki hugsa það. Við erum með þessa veðráttu sem erfitt er hægt að sjá fyrir um og í mars er nánast ómögulegt að leika hér á Laugardalsvelli. Það er eitthvað sem við erum að fást við og erum meðvituð um. Allir eru að reyna að flýta sér hægt en að vanda sig.“

Það var greint frá því í morgun að samningsviðræður við Heimi Hallgrímsson, landsliðsþjálfara, hafa verið settar á ís því hann vilji halda möguleikum sínum opnum. Samningur KSÍ við Heimi rennur út eftir Heimsmeistaramótið í Rússlandi.

„Þetta er allt í mestu vinsemd, en við væntum þess að við tökum upp þráðinn og klárum samninga sem fyrst í sumar,“ sagði Guðni Bergsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×