Erlent

Skotárás á hóteli í Kabul

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Kabúl
Frá vettvangi í Kabúl Vísir/EPA
Minnst fjórir menn hófu skotárás á Intercontinental hótelið í Kabúl fyrr í dag. Tveir árásarmannanna eru látnir og samkvæmt innanríkisráðuneytinu í Afganistan er verið að reyna að hafa uppi á hinum tveimur.

Fréttaveita AFP hafði eftir opinberum starfsmanni að árásarmennirnir væru að skjóta á gesti hótelsins og að minnst fimm séu særðir. Svæðismiðlar í Afganistan halda því hins vegar fram að nokkrir séu þegar látnir.

Árásin hófst klukkan 21 að staðartíma og bárust fregnir að því að árásarmennirnir hefðu skotið öryggisverði á leið sinni inn á hótelið.

Fyrir nokkrum dögum síðan varaði bandaríska sendiráðið í Kabúl við hótelum í borginni.

„Okkur hefur verið gert viðvart að öfgahópar gætu verið að skipuleggja árás á hótel í Kabúl,“ sagði í tilkynningu frá sendiráðinu á fimmtudag.

Annar opinber starfsmaður innanríkisráðuneytisins í Afganistan sagði við AFP að rannsókn væri þegar hafin á því hvernig árásarmennirnir hafi komist fram hjá öryggisvörðum hótelsins.

„Þeir notuðu líklega bakdyr í eldhúsinu til að komast inn,“ sagði hann.

Intercontinental hótelið er í ríkiseigu og er vinsæll staður fyrir fjöldasamkomur svo sem brúðkaup, ráðstefnur og stjórnmálafundi. Talibanar gerðu árás á hótelið árið 2011 og létust þá 21 þar af níu árásarmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×