Fótbolti

Lars hlakkar til að mæta Íslandi: „Enn skemmtilegra ef við vinnum“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson náðu flottum árangri saman með íslenska landsliðið.
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson náðu flottum árangri saman með íslenska landsliðið. vísir/afp
Lars Lagerbäck hlakkar til þess að mæta aftur til Íslands en hann mun stýra norska fótboltalandsliðinu gegn því íslenska á Laugardalsvelli í júní.

KSÍ tilkynnti um vináttulandsleik Íslands og Noregs í gær. Lars mun þá mæta á sinn gamla heimavöll, hann stýrði íslenska liðinu við góðan orðstír í fimm ár og náði ógleymanlegum árangri á Evrópumótinu í Frakklandi.

„Öll lið sem maður hefur þjálfað eiga stað í hjarta mans. Fimm ár á Íslandi gerðu mig hálfgerðan Íslending,“ sagði Lagerbäck í viðtali við Aftenposten.

„Það verður mjög gaman að koma til Reykjavíkur og mæta liði sem er á leiðinni á HM.“

„Ef við náum að sigra þá verður það enn skemmtilegra,“ sagði Lars Lagerbäck.

Síðast þegar liðin mættust, ytra sumarið 2016, fóru Norðmenn með 3-2 sigur. Seinna það sumar fór Ísland svo á EM í Frakklandi. Hjátrúarfullir myndu því kannski segja að Ísland ætti að tapa fyrir Norðmönnum í júní svo árangurinn verði svipaður í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×