Viðskipti innlent

Ráðstöfun stöðugleikaeigna að mestu lokið með sölu Lyfju

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Samkomulag er um það milli stjórnar Lindarhvols og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að fella við niður samning sem ráðuneytið gerði við félagið í apríl 2016.
Samkomulag er um það milli stjórnar Lindarhvols og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að fella við niður samning sem ráðuneytið gerði við félagið í apríl 2016. Vísir/GVA
Félagið Lindarhvoll ehf., sem stofnað var til að annast umsýslu, fullnustu og sölu svokallaðra stöðugleikaeigna, lauk á dögunum opnu söluferli Lyfju hf. með undirritun kaupsamnings við SID ehf. Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðsins en SID ehf er í eigu SIA III, Þarabakka ehf. og Kasks ehf.

Þann 17. nóvember árið 2016 var tilkynnt um að Hagar hf. hefðu keypt Lyfju af Lindarhvoli en samkeppniseftirlitið hafnaði samruna Haga og Lyfju þann 17.júlí á síðasta ári.

Í frétt stjórnarráðsins segir að með sölunni á Lyfju sé ráðstöfun stöðugleikaeigna í umsýslu Lindarhvols lokið. Félagið hefur með sölunni komið langstærstum hluta þeirra eigna sem því var falin umsýsla með í laust fé.

Eftirstandandi virði endurheimt með tíð og tíma

Samkomulag er um það milli stjórnar Lindarhvols og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að fella við niður samning sem ráðuneytið gerði við félagið í apríl 2016 um úrvinnslu og umsýslu stöðugleikaeigna frá og með deginum í dag. Í kjölfarið verður Lindarhvoli ehf. slitið.

Þær takmörkuðu stöðugleikaeignir sem eftir standa eru að stærstum hluta kröfur í þrotabú og önnur innheimtumál, lánasamningar, fjársópseignir og skuldabréf Kaupþings, auk afkomuskiptasamnings sem tengist sölu á Arion banka. Er talið að þær séu þess eðlis að virði þeirra verði best endurheimt með tíð og tíma.

Umsýslu og eftirliti með umræddum eignum verður áfram sinnt í umboði ríkissjóðs og mun andvirði þeirra skila sér inn á stöðugleikareikning ríkissjóðs.

Andvirði þeirra stöðugleikaeigna sem búið er að innleysa nemur alls um 207,5 milljörðum króna en þá eru frátalin framlög vegna viðskiptabanka og aðrar óinnleystar eignir. Þessari fjárhæð hefur lögum samkvæmt verið ráðstafað inn á stöðugleikareikning í eigu ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands og þær nýttar til að greiða niður útistandandi skuldir ríkissjóðs, til að mæta tekjutapi vegna sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki og til að fjármagna lífeyrisskuldbindingar.


Tengdar fréttir

Söluferli Lyfju skýrist á næstu vikum

Stjórn Lindarhvols, eignarhaldsfélags sem heldur utan um stöðugleikaeignir sem voru framseldar til ríkisins, mun á næstu vikum ákveða hvort aftur verði boðað til opins söluferlis á lyfjakeðjunni Lyfju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×