Þetta verður þriðja heimsmeistaramótið innanhúss þar sem Aníta verður meðal keppenda. Hún keppti fyrst á HM í Sopot í Póllandi og svo aftur á HM í Portland 2016. Aníta varð í fimmta sæti í 800 metra hlaupi á HM fyrir tveimur árum.
Aníta hefur náð lágmörkum í 800 metra og 1500 metra hlaupum. Aníta náði fyrst lágmarki í 800 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum þann 4. febrúar 2017 er hún hljóp á tímanum 2:01,18 mínútum sem er Íslandsmet í greininni. Lágmarkið er 2:02,00 mínútur innanhúss.
Aníta náði lágmarki í 1500 metra hlaupi þann 6. febrúar síðasliðinn á IAAF World Indoor Tour mótinu í Düsseldorf í Þýskalandi. Þá hljóp hún 1500 metrana á tímanum 4:09,54 mínútum og setti um leið nýtt glæsilegt Íslandsmet í greininni. Lágmarkið er 4:11,00 mínútur og var hún því talsvert undir lágmarkinu.
Þetta verður ellefta stórmót Anítu og fimmta heimsmeistaramótið og það þrátt fyrir að hún sé aðeins 22 ára gömul síðan í janúar. Fyrsta stórmótið hennar í fullorðinsflokki var Evrópumótið innanhúss í Gautaborg árið 2012.
„Aníta er í hörkuformi þessa dagana og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með henni á mótinu,“ segir í fréttinni á heimasíðu FRÍ.