Innlent

Von á skýrslu Ríkisendurskoðunar um heilbrigðismál fanga í lok mánaðarins

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Sveinn Arason Ríkisendurskoðandi. Skýrslu er að vænta um geðheilbrigðismál fanga um næstu mánaðamót.
Sveinn Arason Ríkisendurskoðandi. Skýrslu er að vænta um geðheilbrigðismál fanga um næstu mánaðamót. Vísir/GVA
Ríkisendurskoðun skilar skýrslu til Alþingis í lok mánaðarins um heilbrigðisþjónustu fanga en stofnunin ákvað í haust að hefja aðalúttekt um þjónustuna.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær, hefur Ríkisendurskoðun ítrekað gert athugasemdir við geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum landsins; fyrst árið 2010 í skýrslu um skipulag og úrræði í fangelsismálum þar sem þeim tilmælum var beint til velferðarráðuneytis að meta þyrfti og mæta þörfum fanga með geðræn vandamál og að móta þyrfti heildarstefnu í málefnum geðsjúkra, fatlaðra og aldraðra dómþola. Tilmælin voru ítrekuð í eftirfylgniskýrslu árið 2013 og aftur 2016.

Í kjölfarið kvaðst velferðarráðuneytið þá hafa unnið að úrbótum en Ríkisendurskoðun taldi árang­ur lítinn og því rétt að fylgja málinu eftir og hefja forkönnun á heilbrigðisþjónustu fanga.

Samkvæmt upplýsingum á vef Ríkisendurskoðunar bentu niðurstöður til að fangar nytu viðunandi almennrar heilbrigðisþjónustu en úrbóta væri þörf vegna geð­heil­brigðis­þjónustu og áfengis- og vímuefnameðferðar. Þá væri stefnumörkun enn ábótavant. Því var ákveðið að hefja aðalúttekt á heilbrigðisþjónustu fanga.

Markmið úttektarinnar er að svara því „hvernig stjórnvöld sjá til þess að fangar fái þá heilbrigðisþjónustu sem þeim ber, hvort skipulag heilbrigðisþjónustu fanga tryggi að henni sé sinnt á hagkvæman og skilvirkan hátt og hvort sú þjónusta skili viðunandi árangri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×