Innlent

Íslensk flugfélög aflýsa ferðum til Bandaríkjanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Veður á austurströnd Bandaríkjanna setur strik í reikninginn fyrir þá sem hyggjast fljúga þangað í dag og á morgun.
Veður á austurströnd Bandaríkjanna setur strik í reikninginn fyrir þá sem hyggjast fljúga þangað í dag og á morgun. Vísir/Eyþór
Bæði Icelandair og Wow air hafa aflýst flugferðum til Boston í Bandaríkjunum vegna storms sem gengur yfir þar. Þá eru farþegar sem eiga bókaðar ferðir til New York og Washington í dag og á morgun beðnir um að fylgjast vel með áætlunum flugfélaganna.

Mikill stormur gengur nú yfir norðausturströnd Bandaríkjanna með hvassviðri, úrkomu og hættu á sjávarflóðum. Af þessum sökum aflýsti Icelandair ferð sinni til Boston í dag og Wow air sömuleiðis.

Icelandair segir á vefsíðu sinni að vegna veðurviðvörunar á austurströnd Bandaríkjanna geti farþegar sem eiga bókað flug með félaginu í dag og á morgun, 2. og 3. mars,  til eða frá Boston, New York eða Washington gert breytingar á miðum sínum.

Ferðum Icelandair til og frá Heathrow í London í dag hefur einnig verið aflýst.

Wow air biður farþegar sína sem eiga bókað flug til eða frá Washington eða New York í dag og á morgun að fylgjast vel með tilkynningum frá félaginu vegna veðursins. Í tilkynningu kemur fram að ferðunum til þessara tveggja borga hafi verið seinkað. Wow air býður farþegum einnig að gera breytingar á bókunum sínum. 

Félagið býst ekki við röskunum á ferðum til vesturstrandarinnar, Pittsburgh eða Chicago.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×