Innlent

Ómerktu dóm vegna ökklabrots Vigdísar

Birgir Olgeirsson skrifar
Vigdís Grímsdóttir er 64 ára og margverðlaunaður rithöfundur.
Vigdís Grímsdóttir er 64 ára og margverðlaunaður rithöfundur.
Héraðsdómur vegna ökklabrots rithöfundarins Vigdísar Grímsdóttur hefur verið ómerktur og vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Vigdís höfðaði mál gegn Mosfellsbakarí og Hermanni Bridde vegna slyss sem Vigdís varð fyrir í útibúi Mosfellsbakarís við Háaleitisbraut árið 2014. Útidyrahurð bakarísins skall harkalega á Vigdísi með þeim afleiðingum að hún ökklabrotnaði illa.

Vigdís hafði betur í héraðsdómi en þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar.

Áður en málið var höfðað hafði Vigdís aflað minnisblaðs tveggja sérfræðinga hjá Eflu verkfræðistofu um aðstæður í inngangi bakarísins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að Vigdís hefði ekki aflað matsgerðar samkvæmt lögum í þeim tilgangi að færa sönnur á staðhæfingar sínar um að umrædd hurðarpumpa hefði ekki virkað sem skyldi ellegar verið vanbúin með öðrum hætti.

Hæstiréttur mat það svo að Vigdís hefði aflað umrædds minnisblaðs einhliða og án þess að Mosfellsbakarí og Hermann Bridde, eiganda þessa hluta fasteignarinnar, ættu þess kost að gæta hagsmuna sinna og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við gerð þess.

Var minnisblaðið ekki talið hafa þýðingu við úrlausn málsins og varð dómur ekki á því byggður.

Þá kom fram að eins og málið lá þá fyrir héraðsdómi, og án þess að fram hefði farið fullnægjandi öflun sönnunargagna um ástand, virkni og mögulega hættueiginleika hurðarpumpunnar hefði héraðsdómara verið ókleift að fjalla um málsástæður sem uppi hefðu verið hafðar um þann þátt málsins á grundvelli almennrar þekkingar og menntunar eða lagakunnáttu. Hefði því verið þörf á sérkunnáttu og hefði héraðsdómara borið að kveðja til meðdómsmenn samkvæmt lögum.

Þar sem það hefði ekki verið gert var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×