Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur spáir því að innan tólf ára verði hundrað þúsund rafbílar komnir á götur Íslands og fullyrðir að nóg sé til af rafmagni fyrir svo mikla fjölgun. Þetta kom meðal annars fram á málþingi um samgöngur í Reykjavík þar sem mikil áhersla var lögð á umhverfisvænan ferðamáta.
Mikil fólksfjölgun á næstu tveimur áratugum með tilheyrandi umferðaþunga var rauði þráðurinn á málþinginu Léttum á umferðinni í dag.
Hjólreiðaáætlun, Borgarlína, Miklabraut í Stokk, rafmagnsvæðing samganga, strætó og bílastæði voru meðal umræðuefna.
Að mati Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, er borgarlínan mikilvægasta næsta skref í samgöngumálum í borginni en á fundinum voru tillögur stýrihóps vegna samgönguáætlunar ríkisins 2018-2030 kynntar. Þar er borgarlínan í fókus.
„Næstu skref er áframhaldandi samtal við ríkisvaldið, tillögurnar fara í þessa kanala sem er samgönguáætlun og fjármálaáætlun,“ segir Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Í erindi um orkukipti í samgöngum sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, aðeins tvo þröskulda koma í veg fyrir mikla fjölgun rafmagnsbíla, annars vegar hversu langt bíllinn kemst á hleðslunni og hins vegar verðið.
Hvort tveggja sé að þróast í rétta átt og því spáir hann hundrað þúsund rafmagnsbílum á Íslandi fyrir 2030 og hefur engar áhyggjur af orkuskorti.
„100 þúsund fólksbílar taka 1,5% af því rafmagni sem er framleitt í dag. Ef við förum í 200 þúsund sem er um það bil bílafloti landsins, þá er það 3 % af því rafmagni sem við framleiðum.“ segir hann.
Forstjóri Orkuveitunnar spáir 100.000 rafbílum fyrir 2030
Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar