Fótbolti

Heimir um Aron Einar: „Landsleikjadagur og þá fer hann að braggast“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands, reiknar með að spila að minnsta kosti fyrri hálfleik gegn Mexíkó í vináttuleik í Bandaríkjunum á morgun.

Aron hefur glímt við erfið meiðsli og gekkst meðal undir aðgerð í lok desember vegna meiðsla á ökla.

„Eins og staðan er núna er ég að fara í fyrri hálfleik. Vonandi 50 til 60 mínútur en við munum spila þetta eftir eyranu,” sagði Aron Einar í samtali við Guðmund Benediktsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, var einnig til viðtals í kvöldfréttunum og hann segir að þetta sé gömul saga og ný; Aron sé meiddur í aðdraganda landsleiks en verði klár þegar flautað verður til leiks.

„Það er landsleikjadagur og þá fer hann að braggast og setur á sig bandið. Þá eru meiðslin horfin,” djókaði Heimir, landsliðsþjálfari, áður en hann útskýrði stöðuna betur.

„Það hefur alltaf verið stefnt að því að hann spili fyrsta leik eftir landsleikjahlé hjá Cardiff og þjálfari Cardiff vill að hann spili eitthvað í þessum leik gegn Mexíkó. Við tökum því fagnandi.”

Ísland spilaði gegn Mexíkó í vináttuleik í Las Vegas fyrir um ári síðan en það var ekki alþjóðlegur landsleikjadagur svo Ísland mætti ekki með sitt sterkasta lið. Heimir segir að mikil orka búi í leikmönnum Mexíkó.

„Mjög kraftmikið lið sem spilar alltaf upp á sig, sama hvort það er æfingarleikir eða vináttuleikir. Við fengum góða æfingu í Vegas. Mikil hlaupageta og við búumst við því að við þurfum að finna okkur út úr hápressu og ætlum að undirbúa okkur þar fyrir HM í leiðinni.”

Allt innslagið má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×