Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - ÍR 43-21 | ÍR-ingar gersigraðir í Mosfellsbænum

Gabríel Sighvatsson skrifar
Gestur Ólafur Ingvarsson, hornamaður UMFA.
Gestur Ólafur Ingvarsson, hornamaður UMFA. vísir
Afturelding og ÍR áttust við í lokaumferð Olís-deildar karla í kvöld. Til að gera langa sögu stutta unnu Mosfellingar stórsigur.

Staðan í fyrri hálfleik var 20-8, heimamönnum í vil og stefndi allt í slátrun ÍR. Vörn og markvarsla var varla með lífsmarki og sóknin álíka léleg.

Í seinni hálfleik keyrði Afturelding enn frekar á Breiðhyltingar með jafngóðum árangri. ÍR spilaði aðeins betri sókn í seinni hálfleik en skaðinn var hinsvegar skeður og lokatölur 43-21 í ótrúlegum leik.

Af hverju vann Afturelding?

ÍR-ingar voru afskaplega slakir í kvöld og hvert annað lið í deildinni hefði líklega unnið þá í kvöld. Þeim til varnar má þó nefna það að 8. sætið var í höfn fyrir leikinn og þetta var þriðji leikur þeirra á viku. Bjarni Fritzson tefldi fram hálfgerðu varaliði í kvöld.

Afturelding náði ítrekað að komat í hraðaupphlaup og refsa. Vörn þeirra og markvarsla var eins og við var að búast hjá sigurliði.

Hvað gekk illa?

ÍR-ingar áttu engin svör. Afturelding keyrði yfir þá frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Vörnin var mjög slök og markvarslan var í algjöru lágmarki. Þrátt fyrir að hafa spilað með ungt lið verður maður að búast við meiru af lið á leið í úrslitakeppni.

Hverjir stóðu upp úr?

Lárus Helgi var með 11 skot í marki heimamanna og Kolbeinn Aron 8. Til samanburðar voru ÍR-ingar með tvö skot varin allan leikinn. Gestur Ólafur var markahæstur í liði heimamanna með 7 mörk og þrátt fyrir fá mörk hjá gestunum skoraði Orri Freyr Þorkelsson einnig 7 mörk.

Hvað gerist næst?

Úrslitakeppnin tekur við. ÍR sækir nýkrýnda deildarmeistara ÍBV heim til Eyja en Afturelding mætir FH í 8-liða úrslitunum.

 

Bjarni: Ákveðið að taka núll sénsa

„Mér fannst þetta bara allt í lagi leikur.“

„Við vorum að spila mjög ungum leikmönnum sem voru að spila í fyrsta skipti í efstu deild og mér fannst þeir bara standa sig vel.“

Hans lið tapaði á endanum leiknum með 23 mörkum.

„Það er eitthvað sem ég var búinn að búa mig undir fyrir leikinn. Við vorum að hvíla stóran hluta af leikmannahópnum og ætluðum að nýta leikinn í að gefa ungum leikmönnum tækifæri og mér fannst það bara heppnast vel.“

„Að hluta til er þetta líka af því þetta er þriðji leikurinn í þessari vikur hjá okkur. Það er líka meiðslaáhætta og í leik sem skiptir engu máli er ég ekki að fara að taka neina áhættu með neinn leikmann sem er ekki 100%, sérstaklega miðað við brottfallið sem við erum búnir að glíma við í vetur.“

Það var greinilegt að þetta var meðvituð ákvörðun að spila ungum leikmönnum og hvíla lykilmenn.

„Það var ákveðið að taka núll séns og nýta leikinn nákvæmlega eins og við nýttum hann.“

„Það eru líka svör fyrir mig að fá, ég fékk nokkur góð svör og svo fékk ég einhver svör um að einhverjir væru kannski ekki tilbúnir alveg strax. Það er bara gott fyrir mig og þá og þetta er bara hluti af því að byggja upp lið.“

Bjarni og hans menn eru á leið til Eyja en það var ekki vitað að leik loknum.

„Mér sýnist ég vera að fá ósk mína uppfyllta að fá að fara til Eyja, það er bara geggjað. Það er mjög skemmtilegt að spila í Eyjum og reyndar á Selfossi líka, en þetta kemur bara í ljós," sagði Bjarni en þess er vert að nefna að ÍR fékk ÍBV í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

 

Einar Andri: Spiluðum mjög vel

„Við spiluðum mjög vel og af miklum krafti. Við fylgdum því sem við ætluðum að gera mjög vel og ég er virkilega ánægður með keyrsluna, fengum 20 plús mörk úr hraðaupphlaupum.“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar eftir stórsigur gegn ÍR í kvöld.

Hann bjóst þó ekki við svona stórum sigri.

„Nei, alls ekki. Ég bjóst við hörkuleik en þða vantaði mjög marga leikmenn í ÍR. En maður spilar bara á móti þeim sem maður mætir og strákarnir eiga hrós skilið fyrir að spila af þessum krafti.“

Hann gerði lítið úr því að ÍR-ingar hefðu spilað eitthvað illa.

„Við spiluðum bara mjög vel.“

Afturelding mætir FH í úrslitakeppninni en hvernig líst Einari á það verkefni?

„Í síðasta leik vorum við að fá ÍBV og hvort sem við fáum ÍBV eða FH þá verður það hörkuviðureign.“ sagði Einar að lokum en hans lið fékk að lokum FH.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira