Erlent

Mikil aukning í úrkomu á Suðurskautslandinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá aldamótunum 1900 hefur íshellan á Suðurskautslandinu bætt við sig fjórtán milljörðum tonna af massa á áratug vegna aukinnar úrkomu.
Frá aldamótunum 1900 hefur íshellan á Suðurskautslandinu bætt við sig fjórtán milljörðum tonna af massa á áratug vegna aukinnar úrkomu. Vísir/AFP
Úrkoma á Suðurskautslandinu hefur aukist um 10% á síðustu tvö hundruð árunum og fellur nú 272 milljónum tonnum meira af snjó þar á ári en við upphaf 19. aldar. Þessi gríðarlega aukning er engu að síður ekki nóg til þess að jafna út bráðnun og hop jökla suðurskautsins vegna hnattrænnar hlýnunar.

Rannsókn vísindamannanna byggist á 79 ískjörnum, sýnum djúpt úr ísnum sem eru grafin upp með löngum borum, sem voru teknir víða á Suðurskautslandinu. Úr lögum í kjörnunum geta vísindamenn lesið ýmis konar upplýsingar, þar á meðal um hvernig úrkoma hefur þróast í gegnum árin, ekki ósvipað því hvernig trjáhringir eru notaðir til að meta aldur trjáa.

Sagan sem ískjarnarnir segja er um gríðarlega aukningu á úrkomu á þeim tíma sem menn hafa dælt koltvísýringi út í lofthjúp jarðar í stórum stíl. Það sem hefur bæst við úrkomuna á tímabilinu 2001 til 2010 miðað við 1801 til 1810 á hverju ári er nægilegt vatn til þess þekja allt Nýja-Sjáland í eins metra djúpu vatni, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.

Aukningin kemur nokkuð á óvart en vísindamenn höfðu almennt talið að úrkoman á Suðurskautslandinu hefði lítið breyst.

Missir ísmassa hraðar en bætir í snjókomuna

Meirihluti viðbótarsnjósins hefur fallið á Suðurskautslandsskagann þar sem hlýnaði mikið í veðri á 20. öldinni. Það samræmist þeirri þekktu eðlisfræði að hlýrra loft getur borið meiri raka en svalara. Hlýnun loftsins ætti því að hafa aukna úrkomu í för með sér.

„Við sýnum fram á í þessari rannsókn að það er það sem hefur verið að gerast,“ segir Liz Thomas frá Bresku suðurskautsrannsóknastofnuninni.

Aukin úrkoma hefur bætt um sjö milljörðum tonna við massa suðurskautsíssins á áratug að meðaltali frá 1800 til 2010. Viðbótin er tvöfalt meiri ef aðeins er miðað við tímabilið frá aldamótum 1900. Svo mikið hefur bætt í úrkomuna að það hefur lækkað yfirborð sjávar um 0,04 millímetra á áratug.

Engu að síður slagar það ekki upp í þá hækkun á yfirborði sjávar sem hop jökla og bráðnun íss á Suðurskautslandinu hefur valdið. Áætlað er að ístap á Suðurskautslandinu hafi hækkað yfirborð sjávar um 4,3 millímetra frá 1992.

„Jafnvel með þessum stóru úrkomuviðburðum er Suðurskautslandið enn að missa ísmassa hraðar en það er að bæta við sig massa með snjókomu,“ segir Anna Hogg, vísindamaður við Leeds-háskóla sem rannsakar íshelluna með gervitunglum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×