Þar til í gær var Facebook-síða íslenska bjórframleiðandans Víking brugghúss aðgengileg unglingum undir áfengiskaupaaldri. Brugghúsið er í eigu Coca-Cola European Partners Ísland (CCEP), en þar hafði láðst að læsa síðunni fyrir tilteknum aldurshópi sem gerði það að verkum að efni og auglýsingar voru öllum aðgengilegar. Síðunni, sem er með rúmlega 14.300 fylgjendur, var læst eftir fyrirspurn Fréttablaðsins í gær.
Helsti keppinautur CCEP, Ölgerðin, er með fjölmargar undirsíður á Facebook fyrir þær bjórtegundir sem þar eru framleiddar en þær eru allar læstar einstaklingum undir áfengiskaupaaldri á Íslandi.
Fréttablaðið sannreyndi þetta með því að útbúa Facebook-aðgang fyrir 17 ára ungling til að skoða síður íslenskra áfengisframleiðenda.
Takmarkanir reyndust í lagi hjá Ölgerðinni en síða Víking brugghúss var opin og sýnileg hinum 17 ára unglingspilti sem Fréttablaðið bjó til. Gat hann séð allt efni, auglýsingar, myndir og myndbönd þar og jafnvel Facebook-leiki þar sem hægt var að vinna bjórkassa í verðlaun.
„Við stóðum í þeirri trú að Facebook-síðan væri lokuð fólki 20 ára og yngra,“ segir Einar Snorri Magnússon, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs CCEP.
Bætt hafi verið úr þessu eftir fyrirspurn blaðsins og fullyrðir hann að öll dreifing áfengisauglýsinga þeirra á Facebook sé stillt þannig að þær birtist ekki 20 ára og yngri. „En vegna þessara mistaka þá hafa þessar auglýsingar mögulega birst aðilum sem gerðu sér sérstaka ferð inn á Víking brugghús Facebook-síðuna,“ segir Einar Snorri.
„Við erum einnig með síður fyrir Thule og Víking Lager og þær eru báðar lokaðar fyrir yngri en 20 ára.“
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)