Enski boltinn

Messan um Vertonghen-Hazard atvikið: Hefði Jói Berg farið í svona tæklingu á Gylfa?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Belgar eru eitt mest spennandi liðið á HM í fótbolta í Rússlandi í sumar en tveir leikmenn liðsins þurfa líklega að ræða aðeins málin eftir leik Chelsea og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Eden Hazard hjá Chelsea og Jan Vertonghen hjá Tottenham.

Jan Vertonghen braut nefnilega mjög illa á Eden Hazard í leik liðanna um helgina en það versta við brotið er að dómari leiksins, Andre Marriner, dæmdi ekki neitt og hélt því fram að um leikaraskap væri að ræða hjá Eden Hazard.

Myndavélarnar sýndu hinsvegar að Jan Vertonghen fór með takkana í kálfann á Eden Hazard. Vertonghen hefði getað fengið rautt en fékk ekki einu sinni dæmda á sig aukaspyrnu. Eden Hazard lá hinsvegar eftir sárþjáður.

Ríkharð Guðnason og félagar í Messunni tóku fyrir þessa tæklingu og Ólafur H. Kristjánsson hafði sína skoðun á atvikinu.

„Þetta er glórulaus tækling og svo að dómarinn skuli ekki sjá þessa tæklingu. Hann er vel staðsettur. Vertonghen fer yfir boltann og beint í sköflunginn á honum,“ sagði Ólafur og var allt annað en sáttur með Andre Marriner dómara.

Jan Vertonghen þarf á Eden Hazard að halda á HM í sumar ef Belgarnir ætla að komast langt.

„Hann er ekkert að spá í því þarna hvað gerist í Rússlandi í sumar. Ég held eins og við töluðum aðeins um fyrir þátt að ef að þetta hefði verið Jói Berg á móti Gylfa þá held ég að hann hefði ekki farið í þessa tæklingu,“ sagði Mikael Nikulásson sem var í Messunni með þeim Ríkharð og Ólafi.

Það má sjá alla umfjöllun Messunnar um brotið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×