Atletico Madrid, Olympique Marseille og Salzburg eru komin í undanúrslit Evrópudeildarinnar ásamt Arsenal en átta liða úrslitin kláruðust í kvöld.
Atletico Madrid vann Sporting 2-0 í fyrri leik liðanna en tapaði 1-0 í Portúgal í kvöld. Fredy Montero kom Sporting yfir á 28. mínútu en nær komust þeir ekki og Atletico fer áfram með herkjum.
Það voru meiri læti í hinum tveimur leikjunum. Lazio var í ágætri stöðu eftir 4-2 sigur gegn Salzburg í fyrri leik liðanna en Salzburg blés til veislu á heimavelli í kvöld og vann 4-1.
Eftir að hafa lent 1-0 undir á 55. mínútu og samanlagt 5-2 skoraði liðið fjögur mörk á næstu tuttugu mínútum og tryggði sig áfram á lygilegan hátt. Samanlagt 6-5, Salzburg í vil.
RB Leipzig leiddi 1-0 gegn Marseille eftir fyrri leik liðanna en í kvöld litu sjö mörk dagsins ljós í Frakklandi en Marseille hafði betur, 5-2. Leipzig komst yfir og minnkaði svo aftur muninn í 3-2.
Mörk frá Dimitri Payet, fyrrum leikmanni West Ham, og Hiroki Sakai í uppbótartíma skutu franska liðinu áfram. Þjóðverjarnir sitja eftir með sárt ennið.
Fótbolti