Fótbolti

Ótrúlegar lokamínútur þegar Juventus heimsótti Inter

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Dramatíkin allsráðandi í Milanó í kvöld.
Dramatíkin allsráðandi í Milanó í kvöld. vísir/getty
Juventus steig skref í átt að enn einum meistaratitlinum í Serie A þegar liðið vann dramatískan sigur á Inter á San Siro í Milanó í kvöld.

Douglas Costa kom Juventus yfir snemma leiks eða á þrettándu mínútu og tveimur mínútum síðar vænkaðist hagur Juve þar sem Matias Vecino, miðjumaður Inter, fékk að líta beint rautt spjald.

Einum færri tókst Inter að komast yfir. Fyrst skoraði Mauro Icardi á 52.mínútu og Andrea Barzagli gerði sjálfsmark skömmu síðar. Juve setti allt á fullt og á lokamínútunum tókst þeim að innbyrða sigur með sjálfsmarki Milan Skriniar á 85.mínútu og svo setti Argentínumaðurinn Gonzalo Higuain sigurmarkið á 89.mínútu. 

Afar mikilvægur sigur fyrir Juventus sem hefur nú fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir. Napoli kemur í humátt á eftir, á leik til góða gegn Fiorentina á útivelli á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×