Á fyrsta ársfjórðungi nam fjöldi erlendra ferðamanna 481 þúsund borið saman við 452 þúsund á sama tímabili í fyrra. Fjölgunin á milli ára, sem nemur 6,3%, hefur ekki verið minni síðan á þriðja ársfjórðungi 2010. Þá fækkaði ferðamönnum um 1,3% frá árinu áður.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans, sem kom út í dag. Þar segir meðal annars að fjölgunin síðustu 12 mánuði leiti stöðugt niður á við, sé litið til einstakra mánaða á fyrsta fjórðungi þessa árs.
Þannig var fjölgunin 8,5% í janúar, 7,9% í febrúar og 3,1% í mars, sem er minnsti vöxtur síðan í mars 2011. Ef farið er aftur til síðasta árs sést svipuð þróun - skýr leitni til lækkunar.
„Segja má að ákveðin kaflaskil hafi orðið í maí þegar vöxturinn fór úr því að vera á bilinu 45-75% í janúar-apríl niður í 17,5%,“ stendur í Hagsjánni og til útskýringar bætt við að á tímabilinu maí til október á síðasta ári lá vöxturinn á bilinu 15-19%.
Það hafi svo orðið önnur kaflaskil í nóvember þegar vöxturinn fór niður fyrir 10% og hefur hann haldist þar síðan.
„Árleg meðalfjölgun erlendra ferðamanna hér á landi á tímabilinu 1949-2017 nemur 9,3%. Marsmánuður var fjórði mánuðurinn í röð þar sem fjölgunin er undir þessu sögulega meðaltali. Það eru nokkuð skýr merki þess að toppnum í fjölgun ferðamanna hafi verið náð og framundan sé mun lægri vöxtur,“ segir í Hagsjá Landsbankans sem má nálgast í heild sinni hér.
„Nokkuð skýr merki“ að fjölgunartoppinum sé náð
Tengdar fréttir
Dvínandi Íslandsáhugi á Google gæti skilað sér í færri ferðamönnum
Í greiningu íslenska vefmarkaðsfyrirtækisins The Engine var kannað hvort gögn frá leitarvélum gætu verið sannspá um ferðamannastraum til Íslands. Áhugi á tilteknu fyrirbæri er gjarnan mældur með því hversu oft það er slegið inn í leitarvélar á netinu.