„Það stefnir allt í það,“ segir Gunnar Ingi Jóhannsson verjandi Atla Más. Hann eigi eftir að fara yfir það með dóminum hvernig nákvæmlega verði að skýrslutökunni staðið.
„Við lögmennirnir viljum báðir hafa þetta í hljóð og mynd. Það er best að andlitið á honum sé þarna,“ segir Gunnar Ingi. Ruiz er búsettur í Suður-Ameríku og það sé erfitt að taka símaskýrslur af mönnum svo langt í burtu.
Atli og Ruiz gefa skýrslu
„Það er eðlilegt að menn treysti ekki hverjir eru hinum megin á línunni,“ segir Gunnar Ingi. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar Spartakusar, hafði óskað eftir því að Ruiz bæri vitni í dómsal. Enginn ágreiningur er lengur þess efnis segir Gunnar Ingi, þ.e. svo framarlega sem Ruiz komi fram í mynd.Aðalmeðferðin hefst í Héraðsdómi Reykjaness í fyrramálið á tíunda tímanum. Reiknað er með því að aðalmeðferðin standi fram yfir hádegi. Atli Már mun gefa skýrslu, Ruiz á eftir honum áður en lögmennirnir ljúka aðalmeðferðinni með málflutningi sínum.
Gunnar Ingi hafði óskað eftir því að Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, gæfi skýrslu. Fram kom á RÚV á mánudaginn að Gunnar Ingi vildi spyrja Karl Steinar út í rannsókn lögreglu á hvarfi Friðriks Kristjánssonar í Suður-Ameríku árið 2013.
Atli Már fjallaði um hvarf hans í grein í Stundinni árið 2016 þar sem reynt var að svara spurningunni hvað hefði komið fyrir Friðrik. Var fjallað um Guðmund Spartakus í greininni og eru ummæli í henni meðal þeirra sem Guðmundur stefnir Atla Má fyrir. Krefst hann tíu milljóna króna í bætur.
Enginn Karl Steinar í dómsal
Lögfræðingar lögregluembættisins meta það svo að það sé ýmsum vandkvæðum bundið að Karl Steinar gefi skýrslu í málinu, að sögn Gunnars. Það snúi meðal annars að þagnarskyldu opinberra starfsmanna en hann geti ekki tjáð sig um málið.Athygli hefur vakið að Guðmundur Spartakus mun ekki gefa skýrslu fyrir dómi þótt verjandi Atla Más hafi skorað á hann að gera það.
„Því hefur verið komið rækilega á framfæri að hann vilji ekki koma og gefa neina skýrslu, hvorki í þessu máli né öðrum,“ segir Gunnar Ingi.
Í Hæstarétti á mánudaginn, þar sem meiðyrðarmál Guðmundar Spartakusar gegn Sigmundi Erni Rúnarssyni var tekið fyrir, lýsti Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar, að umbjóðandi sinn hefði engan áhuga á að lenda í „hakkavél íslenskra fjölmiðla“.
Atli Már fagnar því á Facebook að Ruiz beri vitni á morgun.