Erlent

Ekvador dregur úr öryggisgæslu vegna Assange

Kjartan Kjartansson skrifar
Forseti Ekvadors hefur líkt Assange við steinvölum í skónum sínum. Ástralinn hefur dvalið í sendiráðinu í London frá árinu 2012.
Forseti Ekvadors hefur líkt Assange við steinvölum í skónum sínum. Ástralinn hefur dvalið í sendiráðinu í London frá árinu 2012. Vísir/AFP
Forseti Ekvadors hefur gefið skipun um að viðbótaröryggisgæslu vegna veru Julians Assange, stofnanda Wikileaks, í sendiráði landsins í London verði hætt. Greint var frá því í vikunni að ríkisstjórn Ekvador hefði eytt milljónum dollara í öryggisgæslu fyrir Assange.

Assange hefur hafst við í ekvadorska sendiráðinu í London í hátt í sex ár. Þangað leitaði hann upphaflega til að koma sér undan ákærum vegna kynferðisbrota í Svíþjóð. Eftir að sænskir saksóknarar létu málið niður falla hélt Assange  áfram að dvelja í sendiráðinu til að forðast handtöku í Bretlandi.

The Guardian greindi frá því í vikunni að ríkisstjórn Ekvadors hefði varið að minnsta kosti fimm milljónum dollara í ýmis konar öryggisgæslu fyrir Assange á laun frá árinu 2012. Alþjóðlegt öryggisfyrirtæki var ráðið og útsendarar þess gættu sendiráðsins allan sólahringinn og fylgdust með gestum.

Á sama tíma hafði Assange hins vegar hakkað sig inn í fjarskiptakerfi sendiráðsins og gat fylgst með persónulegum og faglegum samskiptum starfsmanna sendiráðsins.

Lenin Moreno, forseti Ekvadors, hefur nú ákveðið að öryggisgæslan við sendiráðið í London verði héðan í frá með hefðbundnu sniði, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Hann hefur ekki verið eins handgenginn Assange og forverar hans í embætti. Þannig hefur Moreno lýst Ástralanum sem „steinvölu í skónum“.

Sendiráðið lokaði fyrir aðgang Assange að netinu í mars vegna afskipta hans af stjórmálum og málefnum annarra ríkja á Twitter.


Tengdar fréttir

Assange ekki lengur með internetið

Forráðamenn ekvadorska sendiráðsins í London hafa aftengt nettengingu Julian Assange, stofnanda Wikileaks, sem dvalið hefur í sendiráðinu undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×