Það gildi þó ekki um fyrrnefnda leigutaka, eigendur H-foss ehf., sem leggi á vegtolla til að græða sjálfir. Ferðamenn voru rukkaðir um eitt þúsund krónur en númer hóferðabíla voru skrifuð niður.
Þrír þekktir fjárfestir eru að baki H-fossum ehf. En það eru Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður og forseti ÍSÍ, Guðmundur A. Birgisson sem kenndur er við Núpa í Ölfusi og Aðalsteinn Karlsson.
Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í dag voru nýhafnir vegtollar til umræðu.
„Hraunfossar hafa verið friðlýst svæði frá árinu 1987. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á Hraunfossum og nánasta umhverfi þeirra samkvæmt sérstakri auglýsingu nr. 410/1987. Umhverfisstofnun hefur einnig komið að fjármögnun á uppbyggingu göngustíga og útsýnispalla í þeim tilgangi að ferðafólk geti notið fegurðar Hraunfossa án þess að spilla nærliggjandi umhverfi,“ segir í ályktun byggðarráðs sem send var fjölmiðlum.
Einnig beri Umhverfisstofnun ábyrgð á landvörslu á svæðinu, Vegagerðin hafi lagt þangað veg fyrir opinbert fé svo og byggt upp bílastæði. Þá hafi Borgarbyggð einnig lagt fjármagn í uppbyggingu á aðstöðu á svæðinu til að auðvelda aðkomu ferðafólks að því og tryggja vernd náttúrunnar á hinu friðlýsta svæði. Einnig hafi Borgarbyggð kostað hreinlætisaðstöðu við Hraunfossa um langt árabil.

Lögregla varð við beiðni Vegagerðarinnar að biðja leigutakana að láta af gjaldtöku sinni. Umhverfisstofnun hefur sagt gjaldtökuna ólögmæta.
Eva B. Helgadóttir, lögmaður leigutakans, krefst frekari rökstuðnings fyrir neitun á gjaldtöku. Þá er stjórnsýslukæra til umfjöllunar í umhverfisráðuneytinu vegna gjaldtökunnar síðastliðið haust.
„Þegar ég ýtti við þeim um daginn fékk ég það svar að þau myndu reyna að klára þetta fyrir lok mánaðarins,“ sagði Eva í Morgunblaðinu í gær.