Fótbolti

Arda Turan í sextán leikja bann

Einar Sigurvinsson skrifar
Arda Turan í leik með Barcelona.
Arda Turan í leik með Barcelona. vísir/getty
Arda Turan, leikmaður Barcelona sem liðið lánaði til Istanbul Basaksehir í janúar, hefur verið dæmdur í sextán leikja bann fyrir að ýta við aðstoðardómara í leik gegn Si­vasspor í tyrknesku úrvalsdeildinni. Bannið er það lengsta sem aganefnd tyrkneska knattspyrnusambandsins hefur veitt.

Turan brást illa við rauða spjaldinu sem hann fékk í kjölfar þess að hann hrinti öðrum aðstoðardómara leiksins. Segir í dómi aganefndarinnar að hann hafi fengið tíu leikja bann fyrir hrindinguna, þriggja leikja bann fyrir að móðga dómarann og þriggja leikja bann fyrir ofbeldishegðun. Honum var einnig gert að greiða 39 þúsund tyrkneskar lírur í sekt, sem jafngildur um 950 þúsund íslenskra króna.

Arda Turan hefur spilað 11 leiki fyrir Basaksehir á tímabilinu og skorað tvö mörk.

Basaksehir situr sem stendur í 3. sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar með 66 stig, þremur stigum frá toppliði Galatasaray þegar tvær umferðir eru eftir að tímabilinu. Það er ljóst að þeir verða að leika síðustu tvo leiki deildarinnar án Turan, auk fyrstu fjórtán leikja sinna á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×