Fótbolti

Kolbeinn: Nú er nýtt upphaf

Einar Sigurvinsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. getty
„Kolbeinn er góður framherji, sterkur og mikilll fagmaður. Það er synd að hafa ekki getað treyst á hann á tímabilinu,“ sagði Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri FC Nantes, á blaðamannafundi fyrir leik Natnes og Angers sem fer fram um helgina. Kolbeinn Sigþórsson sat einnig fyrir svörum á fundinum.

„Mér líður vel og er ánægður að með að hafa mætt aftur á æfingar í síðustu viku,“ sagði Kolbeinn á fundinum.

„Þetta er búið að vera erfitt í eitt og hálft ár. Ég varð að vera þolinmóður en núna er ég ánægður með að vera mættur aftur á völlinn.“

Þá viðurkennir Kolbeinn fyrir frönsku blaðamönnunum að hann hafi óttast að ferillinn væri á enda.

„Já, ég velti því fyrir mér. Það voru nokkrir læknar efins um að hnéð væri nægilega gott. Ég hitti marga lækna og sérfræðinga, í Barcelona, á Íslandi og í Katar. Það var loksins læknir í Svíþjóð sem gat gert aðgerð á hnénu og þess vegna get ég haldið áfram að spila fótbolta.“

„En nú er nýtt upphaf. Maður fer í gegnum súrt og sætt í fótboltanum og síðustu 18 mánuður hafa verið gífurleg lífsreynsla. Ég hef lært mikið, að vera þolinmóður, andlega sterkur og að taka hlutum eins og þeir eru.“

Adrien Thomasson, leikmaður Nantes, bætti því við í lok blaðamannafundarins að hann væri bjartsýnn á að Kolbeinn muni nýtast liðinu undir lok tímabilsins, en liðið á eftir að spila tvo leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×