Erlent

Hefur fulla trú á getu Trump til að koma á friði

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Moon Jae-in forseti Suður-Kóreu fyrir utan Hvíta húsið í dag.
Moon Jae-in forseti Suður-Kóreu fyrir utan Hvíta húsið í dag. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Moon Jae-in forseti Suður-Kóreu funduðu í dag um fyrirhugaðan fund Trump og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Fundurinn fór fram í Hvíta húsinu í Washington. Með fundinum átti að reyna að tryggja það að af leiðtogafundinum verði.

Eins og kom fram á Vísi í dag sagði Trump fyrir fundinn að mögulega yrði þessum sögulega fundi frestað. Embættismenn í Suður-Kóreu segjast samt 99,9 prósent vissir um að fundurinn verði haldinn. Til stendur að halda fundinn í Singapúr þann 12. júní.

Moon sagði við blaðamenn í Washington í gær að „örlög og framtíð Kóreuskagans“ velti á þessum fundi.  Chung Eui-yong, yfirmaður þjóðaröryggisráðs Suður-Kóreu, sagði við fjölmiðla í dag að þrátt fyrir að þeir væru vissir um að af fundinum yrði, væri verið að skoða alla möguleika.

Trump sagði við blaðamenn að Kim hafi ekki uppfyllt ónefndar kröfur fyrir þessum fundi. Hann sagði þó einnig að hann trúi því að Kim sé alvara um viðræðurnar samkvæmt frétt AFP.

Moon var mjög bjartsýnn og jákvæður og sagðist hafa fulla trú á getu Trump til þess að halda þennan fund og koma á friði og ná „sögulegum sigri sem enginn annar hefði náð á síðustu áratugum.“ Hann hrósaði Trump í hástert.

„Þökk sé þinni sýn á að ná friði með styrk og sterkri leiðtogahæfni erum við einu skrefi nær þeim draumi um kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaganum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×