Tómas Guðbjartsson læknir stendur fyrir sýningunni og segir að aðstandendur myndarinnar hafi tekið afar vel í beiðni um að halda styrktarsýningu fyrir náttúruverndarsamtökin Rjúkandi og verndun fossana upp af Ófeigsfirði.
Benedikt Erlingsson leikstjóri myndarinnar svarar spurningum áhorfanda um myndina í fyrsta skipti á sýningunni.
„Það var komið á leit við okkur um að vera með spurt og svarað eftir sýninguna. Það er í fyrsta skipti sem við sem stöndum að myndinni svörum spurningum úr sal. Ég er spenntur að heyra í íslenskum áhorfendum,“ segir Benedikt.
Hann segir að kvenhetjan í myndinni eigi margt sameiginlegt með náttúruverndarsinnunum fyrir vestan.
„Hún er á einhvern hátt eins og þeir sem vilja verja fossana fyrir vestan. Líta á það sem stóru hagsmunina og langtímahagsmunina. Hún setur sig upp á móti stórfyrirtækjum sem hún álítur vondu karlanna,“ segir hann.
Benedikt segir að þrátt fyrir alvarlegan undirtón sé gleðinni gerð góð skil.
„Nú er Ísland stóra landið í mínum huga. Sumarið kemur seint þetta haustið og það er hægt að finna sumar í þessari mynd. Ég myndi segja að þetta væri svona gleðisprengja.“
Hann segir gríðarlega eftirspurn eftir myndinni um allan heim.
„Það er slegist um hana en hún hefur til að mynda verið seld til, Ameríku, Kanada, Ástralíu, Kína hvort sem þú trúir því eða ekki, Þýskalands og Skandinavíu. Í raun er kona fer í stríð uppseld,“ segir leikstjórinn að lokum.