Erlent

Réttað yfir friðhelgum diplómata í barnaníðsmáli í Páfagarði

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Vísir/afp
Réttað verður yfir preláta, sem er sakaður um varðveislu og dreifingu barnakláms, í Páfagarði en ekki Bandaríkjunum eins og þarlend stjórnvöld óskuðu eftir. Prelátinn, sem er Ítali að nafni Carlo Albergo Capella, hefur starfað á vegum Vatíkansins í Indlandi og Hong Kong í mörg ár.

Hann var fluttur til Bandaríkjanna snemma árs 2017 en síðar sama ár barst Páfagarði tilkynning frá bandarísku alríkislögreglunni um að Capella væri grunaður um að dreifa myndum af barnaníð á netinu. Capella var þá umsvifalaust kallaður heim til Páfagarðs, sem neitaði síðan að framselja hann aftur til Bandaríkjanna þegar málið vatt upp á sig.

Þar sem hann starfaði fyrir Vatíkanið naut Capella diplómatískrar friðhelgi í Bandaríkjunum. Það bjargar honum þó ekki frá ákæru heimafyrir.

Réttarhöldin eiga að hefjast 22. þessa mánaðar en tímasetningin er afar óþægileg fyrir kaþólsku kirkjuna. Í síðasta mánuði buðust allir 34 biskupar kirkjunnar í Chile til að segja af sér vegna hneykslis sem tengdist kynferðisbrotum gegn börnum og hilmingu. Um svipað leyti féll dómur í máli fyrrverandi erkibiskupsins í Adelaide í Ástralíu. Hann var dæmdur fyrir að hilma yfir kynferðisbrot presta á áttunda áratug síðustu aldar.


Tengdar fréttir

Vildu fá prest framseldan vegna barnakláms

Háttsettur prestur, sem starfar í sendiráði Vatíkansins í Washington DC, hefur verið kallaður heim eftir að Bandaríkin fóru fram á að geta ákært hann vegna barnaklámsrannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×