Innlent

Göngumaðurinn sem slasaðist var í hópi júbílanta frá MA

Sylvía Hall skrifar
Frá björgunaraðgerðum á Vaðlaheiði í kvöld.
Frá björgunaraðgerðum á Vaðlaheiði í kvöld. Mynd/Landsbjörg
Göngumaðurinn sem slasaðist á Vaðlaheiði fyrr í kvöld var hluti af hópi júbílanta frá Menntaskólanum á Akureyri sem fagnar 40 ára útskriftarafmæli sínu. Þetta staðfestir Arnaldur Haraldsson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, sem er í svæðisstjórn á svæðinu.

Hópurinn ætlaði að ganga að Skólavörðu á Vaðlaheiði en aðstæður voru ekki góðar. Mikil rigning hefur verið á svæðinu í dag og því gönguleiðin hál. Manninnum skrikaði fótur á leið sinni til baka og slasaðist á ökkla.

Það var til happs að með í för var læknir sem gat hlúið að meiðslum mannsins og haldið fætinum stöðugum á meðan beðið var eftir aðstoð. Maðurinn var svo fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri með björgunarsveitarbíl og var kominn þangað til aðhlynningar um tíuleytið.

Aðgerðin tók um tvær klukkustundir og voru það björgunarsveitir á Akureyri og Svalbarðseyri sem sinntu útkallinu.


Tengdar fréttir

Slasaður göngumaður á Vaðlaheiði

Björgunarsveitir á Akureyri og Svalbarðseyri voru kallaðar út rétt fyrir klukkan 19 í kvöld vegna slasaðs göngumanns á Vaðlaheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×