Viðskipti innlent

Flytur lykilfólk til Parísar vegna Brexit

Þorbjörn Þórðarson skrifar
City, fjármálahverfið í Lundúnum.
City, fjármálahverfið í Lundúnum. Vísir/EPA
Bank of America hefur hraðað undirbúningi sínum vegna Brexit með því að flytja þrjá háttsetta stjórnendur frá höfuðstöðvum bankans í Lundúnum til Parísar þar sem til stendur að efla fjárfestingabankastarfsemi í frönsku höfuðborginni.

Sanaz Zaimi, sem stýrir alþjóðlegri deild Bank of America fyrir skuldabréf, gjaldmiðla og hrávörur, mun flytja til Parísar til að stýra nýjum skrifstofum bankans þar en starfsemi bankans í borginni verður aukin verulega samkvæmt minnisblaði sem Financial Times hefur séð. 

FT greinir frá því að breytingin sér til marks um að stjórnendur alþjóðlegra stórfyrirtækja séu í auknum mæli að flytja bæði fólk og starfsemi frá Bretlandi þar sem hægt gangi að fá niðurstöðu í viðræður um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) og eyða þar með þeirri óvissu sem fylgir útgöngunni. FT segir að stjórnendur margra fyrirtækja séu hreinlega að missa þolinmæðina. Skilmálar Brexit eiga að liggja fyrir í mars á næsta ári en engin niðurstaða er hins vegar komin í mörg heit pólitísk deilumál sem varða útgönguna. 

Um 4.500 manns starfa hjá Banka of America (BofA) í Lundúnum en bankinn hefur valið Dyflina sem evrópskar höfuðstöðvar sínar eftir Brexit og tilnefnt fyrrverandi fjármálastjóra bankans, Bruce Thompson, til að stýra skrifstofunni í Dyflinni.

París kemur svo til með að hýsa fjárfestingarbankastarfsemi BofA og er bankinn um þessar mundir að opna nýjar skrifstofur í borginni þar sem hundruð starfsmanna í sölu og miðlun munu koma til með að vera staðsettir. Margir þeirra munu flytja frá Lundúnum. Nýju skrifstofurnar eru nálægt Elysée frönsku forsetahöllinni en geta þær hýst allt að 1.000 starfsmenn. 

FT hefur eftir einum stjórnanda hjá BofA í ensku höfuðborginni að bankinn virðist einbeittur í því að hraða áformum vegna Brexit til að vera á undan keppinautum sínum. Greint var frá því í síðasta mánuði að Goldman Sachs hefði nú þegar flutt helming þeirra 200 starfsmanna sem kæmu til með að flytja frá Lundúnum eftir Brexit.

Frétt FT. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×