Viðskipti innlent

Hlutkesti réði ákvörðun um málshöfðun í lóðamáli Sigmars og Skúla

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmar Vilhjálmsson fyrir utan dómsal í héraðsdómi þegar málið var tekið fyrir.
Sigmar Vilhjálmsson fyrir utan dómsal í héraðsdómi þegar málið var tekið fyrir. Vísir/Vilhelm
Ákvörðun hluthafafundar félagsins Stemmu hf. um að selja fyrirtækinu FOX ehf. tvær lóðir á Hvolsvelli þar sem byggt var eldfjallasetur var til þess fallin að afla öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hluthafa eða félagsins.

Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Sigmars Vilhjálmsonar gegn fyrrverandi viðskiptafélaga hans, Skúla Gunnari Sigfússyni, í gegnum félagið Sjarm og garm ehf. en félagið er í eigu þeirra beggja.

Stefnan beindist gegn félaginu Stemmu ehf. sem er í meirihlutaeigu Skúla. Sjarmur og garmur á 36 prósenta hlut í Stemmu.

Krafðist Sigmar þess að ákvörðun hluthafafundar Stemmu þann 9. maí árið 2016 þar sem samþykkt var að selja fyrirtækinu FOX ehf. tvær lóðir á Hvolsvelli þar sem byggt var eldfjallasetur yrði ógild. Ítarlega var fjallað um dómsmálið þegar aðalmeðferð þess fór fram.

Sjá einnig: „Ég hef eng­an áhuga á því að taka þátt í frek­ari viðskipt­um við Sigmar Vilhjálmsson“

Í dómi Héraðsdóms sem féll fyrir helgi en birtur var í dag kemur fram að hlutkesti hafi ráðið því að ákvörðun var tekin um málshöfðun Sjarms og garms ehf í málinu. Sem fyrr segir er félagið í eigu Skúla og Sigmars. Atkvæði féllu jöfn á hluthafafundi félagsins þann 23. desember 2016 þegar taka átti atkvæði um málshöfðunina og því þurfti að varpa hlutkesti sem virðist hafa fallið Sigmari í vil.

Fyrir dómi var meðal annars tekist á um hvort sú ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti en í dómi héraðsdóms segir að ekkert í samþykktum félagsins kveði á um hvernig með skuli fara ef atkvæði falla jöfn, því væri ákvörðunin lögleg.

Sigmar Vilhjálmsson bar málsgögn inn í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar málið var tekið fyrir.Vísir/Vilhelm

Sigmar fékk betra tilboð frá Íslandshótelum

Upphaf málsins má rekja til hugmyndar sem Skúli kynnti fyrir Sigmari árið 2014 um að byggja eldfjalla- og jarðhræringasetur á Hvolsvelli. Síðar kom svo bygging hótels inn í verkefnið.

Árið 2015 fór samstarfið þó að súrna og svo fór að í september árið 2015 var lagt fram tilboð í lóðirnar sem deilt var um. Tilboðið var frá Þingvangi og FOX ehf. upp á 25 milljónir króna fyrir réttinn til bygginga á báðum lóðum. Tilboðinu var hafnað.

Sjá einnig: Sigmar segir „samlokusalann“ Skúla hafa stundað „siðlausa viðskiptahætti

Fór Sigmar þá á fund með Íslandshótelum til þess að fá betra tilboð en borist hafði í lóðirnar. Fékk hann tilboð upp á 50 milljónir króna í lóðirnar frá Íslandshótelunum en tilboðinu var ekki svarað af Stemmu.

Nokkrum mánuðum síðar var á hluthafafundi Stemmu 9. maí 2016 tekið fyrir annað tilboð frá FOX ehf. um kaup á lóðunum tveimur og öðrum réttindum upp á 25 milljónir auk annarra 15 milljóna. Var því tilboði tekið og var það ákvörðun sem Sigmar vildi fá hnekkt.

Sigmar Vilhjálmsson og Skúli Gunnar Sigfússon á meðan allt lék í lyndi, á yfirborðinu hið minnsta.Fréttablaðið/Stefán

Lóðirnar mun verðmætari en þeir voru seldar á að mati matsmanna

Fyrir dómi var kynnt matsgerð og var niðurstaða hennar að virði lóðarréttindanna hafi verið umtalsvert meira en það verð sem stefndi seldi þau á, önnur lóðin væri metin á 100-110 milljónir en hin á 25 milljónir.

Í dómi héraðsdóms segir að ágreiningur um virði lóðarréttindanna hafi gefið fullt tilefni til þess að afla verðmats eða setja af stað söluferli svo að auðveldara væri að leggja mat á virði lóðanna og að stefndi yrði að bera hallann af því að það var ekki gert.

Sjá einnig: Sigmar segir sigurinn í dómsmálinu gegn Skúla vera súrsætan

„Með umræddri ákvörðun var eign stefnda ráðstafað til aðila sem tengdist ákveðnum hluthafahópi félagsins á verði sem var umtalsvert lægra en virði hennar samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð,“ segir í dómi Héraðsdóms sem ógildi ákvörðun hluthafafundarins.

Þá þarf Stemma einnig að greiða fjórar milljónir króna í málskostnað vegna málsins, að því er segir í dómi héraðsdóms.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×