Fótbolti

Hannes þarf nú að geyma leikstjóradrauma sína í nokkur ár í viðbót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson eltir nú drauma sína um að spila í Meistaradeildinni í fótbolta en hann samdi í vikunni við aserska félagið Qarabag.

Fyrir vikið þarf Hannes að geyma leikstjóradrauma sína í nokkur ár í viðbót.

Það vakti mikla athygli fyrir HM í Rússlandi þegar Hannes leikstýrði frábærri HM-auglýsingu Coca-Cola þar sem honum tókst á skemmtilegan hátt að tengja saman hinar fjölmörgu hliðar íslenska HM-ævintýrisins.

Hannes var í viðtali í Bítinu í gær og þar var hann spurður hvort nýi samningur hans við Qarabag hafa einhver áhrif fyrir leikstjórann Hannes Þór Halldórsson.

„Þetta kannski aðeins flækir þau mál enda lengra að fljúga í allt saman,“ sagði Hannes í Bítinu á Bylgjunni en hann og fjölskylda hans munu búa í Bakú við Kaspíahafið. En mun Hannes fá einhver tilboð um að leikstýra nú þegar hann er fluttur til Aserbaídsjan?

„Við verðum að sjá til hvað setur í því. Ef ekki þá bíður það bara þangað til að við komum heim,“ sagði Hannes. Hann var ánægður með auglýsinguna og fékk líka mjög jákvæð viðbrögð við henni.

„Það var hrikalega gaman að setjast aftur í þennan leikstjórastól og takast á við svona stórt og mikið auglýsingaverkefni. Ég gat ekki beðið eftir því að koma heim í tökur eftir mikinn undirbúning,“ sagði Hannes um Coca cola auglýsinguna.

„Ég fann það alveg að þessi ástríða er ennþá til staðar og ég hlakka bara til að geta snúið mér að þessu þegar fótboltinn er búinn. Það verðu ekki alveg strax, ég ætla að einbeita mér að fótboltanum í nokkur ár í viðbót og síðan tekur hitt við,“ sagði Hannes.

Hannes er 34 ára gamall og ætti því að eiga mörg góð ár eftir í boltanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×