Innlent

Um tvö þúsund strákar mættir norður á N1-mótið

Atli Ísleifsson skrifar
Strákarnir sem keppa á mótinu eru í 5. flokki og eru því fæddir 2006 og 2007.
Strákarnir sem keppa á mótinu eru í 5. flokki og eru því fæddir 2006 og 2007. Mynd/Sigurður Svansson
Alls eru 188 lið skráð til leiks á N1-mótinu í knattspyrnu sem hefst á Akureyri í dag og stendur fram á laugardag. Mótið er nú haldið í 32. sinn og eru um tvö þúsund strákar mættir norður til að taka þátt.

Í tilkynningu kemur fram að Kópavogsliðin tvö, Breiðablik og HK, séu fjölmennust í ár, en frá þeim koma þrettán lið annars vegar og ellefu lið hins vegar. Strákarnir sem keppa á mótinu eru í 5. flokki og eru því fæddir 2006 og 2007.

Framkvæmd mótsins er í höndum KA, en auk strákanna sem keppa fylgja þeim þúsundir aðstandenda og þjálfara norður.

Í tilkynningunni er haft eftir Sævari Pétussyni, framkvæmdastjóra KA, að það sé alltaf jafn gaman að taka á móti öllum þessum liðum, sjá spennuna magnast og horfa upp á leikgleðina í augum drengjanna. „Við KA-menn erum stoltir af því að hafa umsjón með þessu frábæra móti, samstarfinu við N1 og hlökkum til að taka á móti keppendum, þjálfurum og öðrum þeim sem leggja leið sína hingað norður. Við minnum alla á að njóta tímans hér nyrðra, muna að þetta á að vera gaman og síðast en ekki síst hvetjum við foreldra og forráðamenn til að vera duglegir að taka myndir af drengjunum og merkja með #n1mótið á samfélagsmiðlum og halda þannig áfram að skrá þannig söguna,” segir Sævar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×