Einhverjir leiddu að því líkur að líkamsleifar Alexanders mikla væru í kistunni eða jafnvel einhverskonar bölvun sem myndi færa miklar hörmungar yfir mannkynið.
Það sem leyndist í kistunni voru þrjár beinagrindur og óbærilegur fnykur af rauðbrúnu skólpi.

Fjölmiðlar í Egyptalandi segja frá því að fornleifafræðingarnir hefðu náð að lyfta loki kistunnar um fimm sentímetra en þurftu að flýja óþefinn sem gaus upp. Kistan var síðan opnuð með aðstoð verkfræðinga frá egypska hernum.
Fornleifafræðingarnir telja að beinagrindurnar hafi tilheyrt hermönnum og eru áverkar á einni höfuðkúpunni sem gefa til kynna að hún hafi orðið fyrir ör.
„Við opnuðum kistuna og guði sé lof, myrkur lagðist ekki yfir heiminn,“ Mostafa Waziri, formaður egypska fornmunaráðsins, við fjölmiðla og vísaði þar í áhyggjur margra af mögulegum afleiðingum ef kistan yrði opnuð.
„Ég var fyrstur til að stinga höfðinu ofan í kistuna og hér stend ég fyrir framan ykkur í góðu lagi,“ bætti Waziri við.

Kistan er 27 tonn að þyngd, tveggja metra há og þriggja metra löng. Hún er sú stærsta sem hefur fundist í heilu lagi.
Hún er talin vera frá tímum veldis Ptolemaja, sem hófust árið 323 fyrir Krist þegar Alexander mikli lést.