Fótbolti

FIFA staðfesti að HM verður í nóvember og desember árið 2022

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Katar mun halda HM eftir fjögur ár
Katar mun halda HM eftir fjögur ár Vísir/Getty
FIFA hefur staðfest að næsta heimsmeistarakeppni, sem fer fram í Katar árið 2022, verði leikin í nóvember og desember. Úrslitaleikurinn sjálfur verður fjórða sunnudag í aðventu.

Áður hafði komið fram að HM eftir fjögur ár yrði yfir vetrartímann þar sem hitinn í Katar er gríðarlegur á sumrin og getur farið yfir 40 gráður. Leikdagar mótsins voru staðfestir í dag.

Forseti FIFA, Gianni Infantino, staðfesti á blaðamannafundi í dag að HM 2022 færi fram dagana 21. nóvember til 18. desember. Úrslitaleikurinn sjálfur fer fram sex dögum fyrir aðfangadag jóla, fjórða sunnudag í aðventu.

„Deildum heimsins hefur verið tilkynnt um þetta nú þegar og munu að sjálfsögðu þurfa að hliðra til vegna þessa,“ hafði blaðamaðurinn Joe Crann eftir Infantino á Twitter í dag.

Allar stærstu deildir heims eru vetrardeildir og munu þurfa að taka ansi langt hlé vegna mótsins.

Mótið í Katar mun að öllum líkindum verða það síðasta þar sem þáttökuþjóðirnar eru 32, en þeim verður fjölgað í 48 á HM 2026 í Norður-Ameríku. Infantino tók þó fram á blaðamannafundinum að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir 32 þjóðum þá „hafi lokaákvörðunin ekki verið tekin enn.“


Tengdar fréttir

Langdýrasta HM sögunnar?

Getur verið að 2,6 milljóna manna þjóð ætli að eyða 20.000 milljörðum króna í að halda heimsmeistaramót í fótbolta?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×