Erlent

Eldhaf í Gautaborg

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gríðarlegur eldur kom upp í verksmiðjunni.
Gríðarlegur eldur kom upp í verksmiðjunni. Skjáskot
Svartur reykur liggur nú yfir stórum hluta Gautaborgar eftir að eldur kom upp í iðnarhverfi í borginni. Íbúar hafa verið beðnir um að halda sig innandyra, loka öllum gluggum og kynda hús sín. Á vef sænska ríkisútvarpsins segir að búið sé að rýma eina íbúðarblokk og girða af stórt svæði. Enginn er talinn hafa slasast.

Eldurinn geisar enn í iðnaðarhúsnæði sem hýsir rækju- og laxvinnslu­fyrirtæki í hverfinu Lundby. Í frétt á vef Aftonbladet er jafnframt tekið fram að bílaframleiðandinn Volvo sé með verksmiðju í næsta nágrenni.

Tilkynning um eldinn barst um klukkan 22 að staðartíma, kl. 20 að íslenskum, og að sögn sjónvarvotta breiddist hann hratt út í húsinu. Þá telur einn sjónarvottur sem ræddi við sænska miðla að eldurinn væri búinn að berast í aðra byggingar, það hefur þó ekki fengist staðfest. 

Gríðarlegar sprengingar hafa einnig heyrst innan úr eldhafinu, tíu hið minnsta, og óttast slökkviliðsmenn að gaskútar og önnur eldfim efni kunni að leiða til fleiri sprenginga, fari svo að eldurinn læsi sig í þeim.

Þrátt fyrir að tekið sé að skyggja í Svíþjóð sést svartur reykjarmökkurinn um alla borgina. Tíu slökkviliðsbílar voru sendir á vettvang sem mannaðir voru með 40 slökkviliðsmönnum. Þar að auki eru 4 sjúkrabílar til taks, fari svo að einhver slasist við slökkvistarfið. Sem fyrr segir hafa ekki neinar fregnir borist af manntjóni en engin starfsemi var í húsinu þegar eldurinn braust út. Eldsupptök liggja ekki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×