Allt stefnir í að Icelandair muni í ár, í fyrsta sinn, vera með minna en helmings markaðshlutdeild á flugferðum til og frá Íslandi. Fluggreiningarfyrirtækið CAPA áætlar að markaðshlutdeild flugfélagsins verði 47,1 prósent í ár, samanborið við 51,4 prósent í fyrra og rúmlega 80 prósent árið 2012 - árið sem WOW Air tók til starfa.
WOW hefur á þeim tíma aukið markaðshlutdeild sína jafnt og þétt. Talið er að hún verði 31,3 prósent í ár en markaðshlutdeild fyrirtækisins var 27,6 prósent í fyrra.
Sjá einnig: Kallar á frekari uppstokkun
Samanlögð markaðshlutdeild annarra flugfélaga til og frá Íslandi hefur einnig aukist á liðnum árum. Áætlanir CAPA gera ráð fyrir því að hún verði rúmur fimmtungur á þessu ári, samanborið við 15,4 prósent hlutdeild árið 2014. Alls býður 31 flugfélag upp á reglulegt millilandaflug til Keflavíkur í ár.
Gert er ráð fyrir því að flugsætum til og frá Íslandi muni að sama skapi fjölga í ár um 13 prósent. Heildarfjöldi flugsæta í lok árs yrði því um 12,1 milljón talsins.
Flugsætum Icelandair mun fjölga um 4 prósent í ár og mun heildarfjöldi þeirra í lok árs telja 4,7 milljónir. Það telsti hlutfallslega lítill vöxtur, samanborið við 28 prósent flugsætafjölgun WOW Air á milli ára og 13,3 prósent vöxt annarra flugfélaga sem fljúga til og frá Íslandi.

