Fótbolti

Lewandowski fær ekki að fara frá Bayern

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Lewandowski var markahæstur í Bundesligunni í fyrra
Lewandowski var markahæstur í Bundesligunni í fyrra
Niko Kovac, stjóri Bayern Munchen, segir ekki koma til greina að Robert Lewandowski fái að yfirgefa félagið í sumar þrátt fyrir að pólski framherjinn hafi ýjað að því að vilja fara frá félaginu.

Þessi 29 ára gamli markahrókur hefur verið orðaður við Real Madrid auk þess sem Borussia Dortmund hefur spurst fyrir um fyrrum skjólstæðing sinn.

„Það er ekkert nýtt varðandi Robert (Lewandowski). Það er klárt að hann mun ekki yfirgefa félagið því í honum höfum við framherja í hæsta gæðaflokki sem við viljum ekki láta frá okkur,“ segir Kovac, ákveðinn.

„Við viljum vinna til verðlauna með honum. Hann er frábær fótboltamaður sem hefur afrekað margt í Bundesligunni; skorað mörg mörk og hann mun væntanlega halda því áfram á komandi leiktíð,“ segir Kovac.

„Það er rétt að hann hefur gefið því undir fótinn að hann vilji fara. Þetta snýst hins vegar um hvað við viljum gera. Robert er með samning, ég veit ekki hversu langt hann nær en hann verður hér eins lengi og mögulegt er,“ segir Kovac.

Lewandowski er með samning til ársins 2021 og miðað við orð Kovac fer hann ekki fet fyrr en þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×