Sport

Katrín Tanja þriðja í fyrstu grein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir stóðu sig best í fyrstu grein.
Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir stóðu sig best í fyrstu grein. Mynd/Twitter/CrossFit Games
Katrín Tanja Davíðsdóttir byrjaði best af íslensku stelpunum á heimsleikunum í CrossFit en hún náði þriðja sætinu í fyrstu grein heimsleikanna sem hófust í dag í Madison í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum.

Íslensku stelpurnar byrjuðu mjög vel en Ísland átti tvær meðal sex efstu, þrjár meðal ellefu efstu og þá voru allar fjórar íslensku stelpurnar í 21. sæti eða ofar.

Fyrsta greinin í ár var götuhjólakeppni en í fyrsta sinn á heimsleikunum var keppt á götuhjólum en ekki á fjallahjólum eins og áður.

Katrín Tanja var meðal fremstu kvenna allan tímann og um tíma í forystunni. Hún missti hinsvegar tvær framúr sér í lokin.

Norðmaðurinn Kristin Holte vann greinina og Ungverjinn Laura Horvath varð önnur.

Anníe Mist Þórisdóttir byrjaði einnig mjög vel og náði sjötta sætinu í þessari fyrstu grein leikanna. Oddrún Eik Gylfadóttir náði síðan 11. sæti í sinni fyrstu grein á heimsleikum.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir var um tíma í forystu en hélt ekki út og datt aftur um 20 sæti á síðustu tveimur hringunum. Sara endaði því í 21. sæti.

Meistarinn frá því i fyrra, Tia-Clair Toomey, varð í fimmta sæti eða einu sæti á undan Anníe Mist.

Þetta er fyrsta greinin af fjórum í dag en auk þessa að keppa í tveimur klassískum CrossFit greinum þá mun dagurinn enda á maraþonróðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×