Íkveikjan við bílaumboðið Öskju snemma í morgun er nú til rannsóknar hjá lögreglu. Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við málið, að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.
„Það er verið að vinna úr vísbendingum sem lögregla hefur,“ segir Kristján í samtali við Vísi.
Sjá einnig: Helmingur bifreiðanna úr brunanum í eigu viðskiptavina
Talið er fullvíst að um íkveikju hafi verið að ræða. Lögregla gat þó ekki upplýst um hvað það væri sem benti til íkveikju.
Þá kemur fram í tilkynningu frá bílaumboðinu Öskju að lögregla hafi óskað eftir vitnum sem kunna að hafa orðið vör við mannaferðir við Öskju á fimmta tímanum í morgun. Þá sé verið að fara yfir upptökur úr öryggismyndavélum á svæðinu.
Tilkynnt var um brunann rétt fyrir klukkan fimm í morgun en búið var að slökkva eldinn um klukkutíma síðar. Fjölmennt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu tók þátt í slökkvistarfi.
Átta bílar eru ýmist mikið skemmdir eða ónýtir eftir brunann. Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að helmingur bifreiðanna sem skemmdust séu í eigu viðskiptavina fyrirtækisins en hinir í eigu umboðsins.
Enginn í haldi lögreglu en fullvíst að kveikt var í bílunum

Tengdar fréttir

Átta bílar skemmdust í bruna við Öskju
Átta bílar skemmdust í brunanum, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Helmingur bifreiðanna úr brunanum í eigu viðskiptavina
Að minnsta kosti átta bifreiðar eru mikið skemmdar eða ónýtar eftir íkveikju við bílaumboðið Öskju snemma í morgun.