Erlent

Palin ekki boðið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
McCain og Palin voru frambjóðendur Repúblikana í forsetakosningunum 2008.
McCain og Palin voru frambjóðendur Repúblikana í forsetakosningunum 2008. Vísir/Getty
Sarah Palin, varaforsetaefni og meðframbjóðandi John McCain í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2008 er ekki boðið í minningarathöfn um öldungardeildarþingmanninn.

McCain lést um liðna helgi eftir baráttu við heilaæxli og á laugardaginn verður haldin minningarathöfn um hann í dómkirkjunni í Washington þar sem Barack Obama, sem sigraði McCain í kosningunum árið 2008, mun meðal annarra halda minningarræðu.

Athygli vekur hins vegar að Palin mun ekki vera boðið í athöfnina en í frétt BBC segir að fjölskylda McCain hafi komið skilaboðum þess efnis í gegnum sameiginlega vini.

Heimildarmenn People-tímaritsins í Bandaríkjunum segja líklegt að eftirlifandi eiginkona McCain hafi tekið ákvörðun um að Palin yrði ekki boðið.

Í bók sem McCain gaf út fyrr á árinu sagðist hann sjá eftir að hafa valið Palin sem varaforsetaefni sitt á sínum tíma. Palin var þá tiltölulega óþekkt á landsvísu þrátt fyrir að gegna embætti ríkisstjóra Alaska.

Fjölmiðlar vestanhafs hafa einnig fjallað um að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sé heldur ekki boðið og að McCain hafi sérstaklega óskað eftir því á dánarbeðinu, en McCain var helsta gagnrýnisrödd á stefnu og aðgerðir Trump innan Repúblikanaflokksins.


Tengdar fréttir

John McCain látinn

Bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn John McCain er látinn, 81 árs að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×