Yfirvöld Ísrael segja stjórnarher Bashar al-Assad um að kenna að rússnesk herflugvél hafi verið skotin niður í gærkvöldi. Fimmtán áhafnarmeðlimir dóu þegar vélin var skotin niður í aðflugi að flugstöð Rússa í Latakia-héraði í Sýrlandi. Ísraelar gerðu loftárásir í Sýrlandi og sýrlenskir hermenn skutu rússnesku flugvélina niður fyrir slysni.
Ísraelar segja stjórnarhernum alfarið um að kenna en hins vegar lýsa þeir yfir sorg vegna atviksins.
Rússar hafa sakað Ísrael um að hafa valdið dauðum mannanna en Vladimir Pútín, forseti Rússlands, sagði í dag að atvikið hefði verið sorgleg niðurstaða tilviljana.
Samkvæmt Ísraelsmönnum virðist sem að Assad-liðar hafi skotið flugskeytum án þess að skeyta nokkuð um hvern þeir væru að skjóta á. Mjög sjaldgæft er að her Ísrael tjái sig um árásir í Sýrlandi.
Herinn sagði að árásirnar í gær hefðu verið gegn herstöð stjórnarhers Assad, þar sem Íran sé að útvega Hezbollah hryðjuverkasamtökunum búnað til að framleiða vopn. Ísraelar óttast aukin umsvif Íran í Sýrlandi og vopnaflutninga til Hezbollah.
Þá sagði herinn ekki rétt að ísraelskir flugmenn hefðu notað rússnesku flugvélina sem skjól frá loftvörnum Sýrlendinga. Flugvélin hefði ekki verið nærri því svæði sem loftárásirnar hefðu verið gerðar á. Þar að auki hefðu herþoturnar sem notaðar voru til árásanna verið komnar aftur til Ísrael þegar flugvélin var skotin niður.
Samkvæmt BBC ræddi Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, við Avigdor Lieberman, varnarmálaráðherra Ísrael, í síma í dag og sagði að Rússar myndu bregðast við atvikinu. Það var þó áður en Pútín steig fram og virtist reyna að draga úr spennunni með því að segja að viðbrögð Rússa yrðu að tryggja öryggi hermanna sinna.
Þór Þorl.
Valur