Fótbolti

Öflugur sigur Rostov en vandræðin halda áfram hjá Hirti og félögum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sverrir Ingi í leik með Rostov en þeir hafa spilað afar öflugan varnarleik með hann og Ragnar í hjarta varnarinnar.
Sverrir Ingi í leik með Rostov en þeir hafa spilað afar öflugan varnarleik með hann og Ragnar í hjarta varnarinnar. vísir/getty
Íslendingaliðið Rostov í rússnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er fjórum stigum frá toppnum eftir 1-0 sigur á Spartak Moskvu.

Eina mark leiksins kom á 67. mínútu er Aleksandr Zuev skoraði og tryggði gestunum frá Rostov mikilvægan 1-0 sigur.

Þeir eru nú í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig. Þeir eru fjórum stigum frá Zenit sem er á toppnum en í öðru sætinu er annað Íslendingalið, Krasnodar.

Sverrir Ingi Ingason og Ragnar Sigurðsson spiluðu allan leikinn í vörn Rostov en Viðar Örn Kjartansson kom inn á sem varamaður á 60. mínútu.

Björn Bergmann Sigurðarson var ekki í leikmannahópi Rostov en reikna má með því að hann sé meiddur.

Hjörtur Hermannsson spilaði allan leikinn í vörn Bröndby sem tapaði 2-1 fyrir Horsens á heimavelli. Bröndby í vandræðum, í sjöunda sæti deildarinnar með fjórtán stig.

Þeir voru að berjast um titilinn á síðustu leiktíð en hafa verið í vandræðum það sem af er þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×