Það var árið 1963 sem Flugfélag Íslands hóf Færeyjaflug frá Reykjavíkurflugvelli, fyrst eitt og sem hluta af Kaupmannahafnarflugi, en síðan í samstarfi við Færeyinga. Undanfarinn aldarfjórðung hafa færeyskar þotur sinnt fluginu.

„Það er erfitt að fara um flugstöðina hér í Reykjavík því hún er svo lítil. Auk þess eru flugbrautirnar hérna of stuttar til að stórar flugvélar geti lent hérna,“ segir Rasmus Niclasen, stöðvarstjóri Atlantic Airways.
„Meginástæðurnar eru flugbrautirnar. En auðvitað er stærri vél með kannski 180 farþegum, - það er einfaldlega of stór eining í millilandahluta flugstöðvarinnar okkar,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

„Við höfum í gegnum áratugina verið að vinna að ýmsum leiðum hér til að laga aðstöðuna okkar. Og það er ekkert endanlegt komið á borðið þar. En við höfum verið að bíða eftir samgöngumiðstöð, við höfum verið að bíða eftir ýmsum leiðum,“ segir Árni.
Og Færeyingar munu sakna þess að geta ekki lent í Reykjavík.
„Það er frábært að lenda í Reykjavík. Farþegarnir vilja helst lenda í Reykjavík því þar ertu í miðri borginni. En með stærri flugvélar neyðumst við til að lenda í Keflavík,” segir Rasmus Niclasen en bætir við að það geti jafnframt verið hagstætt fyrir farþega í Ameríkuflugi að fá tengingu í Keflavík.

En það var athyglisvert að fylgjast með þessu síðasta flugtaki í morgun, þotan var ekki búin með nema um þriðjunginn af brautinni þegar hún tók sig til flugs. Rúmri klukkustund síðar var hún lent í Færeyjum.
Hér má sjá brottför Færeyjaflugsins frá Reykjavík: