Innlent

Reikna með að konur streymi í miðbæinn á miðvikudaginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þúsundir fylltu Austurvöll á Kvennafrídaginn fyrir tveimur árum.
Þúsundir fylltu Austurvöll á Kvennafrídaginn fyrir tveimur árum. Fréttablaðið/Stefán
Miklar götulokanir verða í miðborginni á Kvennafrídeginum á miðvikudaginn. Lokanir verða á Kalkofnsvegi og víðar vegna baráttufundar á Arnarhóli í tilefni af Kvennafríi 2018.

Sviði verður komið fyrir á Kalkofnsvegi fyrir framan Arnarhól og hefst uppsetning sviðsins klukkan níu að morgni miðvikudags. Verður akreinum í báðar áttir lokað segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Allar konur eru hvattar til að leggja niður störf kl. 14:55 miðvikudaginn 24. október. Dagskrá hefst við Arnarhól kl. 15:30. Gert er ráð fyrir að viðburðurinn vari í um eina klukkustund. Búist er við miklum mannfjölda í miðborginni meðan á dagskrá stendur.“

Miklar takmarkanir verða á umferð í miðborginni kl. 15:00 og vara þar til formlegri dagskrá lýkur. Ökumenn ættu því að forðast að keyra um miðborgina á þessum tíma. Kalkofnsvegur verður lokaður áfram þar til sviðið hefur verið tekið niður á ný en þó ekki lengur en til kl. 21:00.

Bílastæðum á móts við Skúlagötu 4, sem hýsir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, verður lokað þennan dag og þau nýtt fyrir hreyfihamlaða á meðan á dagskránni stendur. Rútum verður beint á rútustæði við Hörpu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×